Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samþykkt að tankar við Njarvíkurhöfn skuli rifnir
Mánudagur 30. júní 2003 kl. 15:20

Samþykkt að tankar við Njarvíkurhöfn skuli rifnir

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hefur ákveðið að rífa skuli tanka við Njarðvíkurhöfn sem eru þar á vegum Tankastöðvarinnar ehf., en tankarnir hafa verið notaðir undir geymslu á loðnu. Í fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 12. júní kemur fram að gögn liggi fyrir um margítrekaðar athugasemdir og tilraunir nefndarinnar við að fá Tankastöðina ehf. til að bæta úr slysahættu og umhverfislýtum sem af tönkunum og athafnasvæði fyrirtækisins stafa. Í fundargerðinni segir að þessar tilraunir hafi engan árangur borið og samþykkti nefndin á fundi sínum að tankarnir, sem eru átta talsins verði fjarlægðir á kostnað eiganda þeirra. Nefndin samþykkti einnig að láta fjarlægja alla lausamuni af lóðum Hafnarbrautar 1 og Hafnarbakka 15 á kostnað Tankastöðvarinnar ehf. Hafist verður handa við að fjarlægja lausamuni af lóðunum þann 1. ágúst, en byrjað verður á að fjarlægja tankana þann 15. september nk.

Bergur Sigurðsson starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sagði í samtali við Víkurfréttir að aðdragandi þessa máls hefði verið langur. „Eigendur tankanna hafa fengið marga fresti til að laga til á þessu svæði, en þeir hafa ekki sinnt því. Nú er kominn tími til að gera eitthvað í þessum málum og tankarnir verða rifnir og svæðið hreinsað,“ segir Bergur en tekur það fram að ef Tankastöðin ehf. komi með áætlun um hreinsun svæðisins þá verði tekið tillit til þess og málið unnið í samvinnu við fyrirtækið.

VF-ljósmynd: Eins og sést á myndinni eru tankarnir ekki til mikillar prýði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024