Samþykkt að selja Víkurbraut 58 ehf.
Tillaga að kaupsamningi milli Grindavíkurbæjar og AFG. ehf um Víkurbraut 58 ehf. um sölu á 80% hlut bæjarins í félaginu var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær. Kaupandi hefur einnig gert tilboð í hluti annarra eigenda í félaginu, þ.e. Kvenfélags Grindavíkur sem á 13,5% í félaginu og Ungmennafélags Grindavíkur sem á 6,5%.
Gengið verður til samninga við AFG ehf. um sölu á hlutabréfum í Víkurbraut 58 ehf. en eina eign þess félags er húseignin Festi, Víkurbraut 58. Víkurbraut 58 ehf. skuldar Grindavíkurbæ um 25.000.000 kr. Samningurinn er á þann veg að Grindavíkurbær selur sinn hlut í félaginu á 400.000 kr. og seljandi skuldbindur sig til að endurgreiða Grindavíkurbæ 15.000.000 kr. skuld félagsins við Grindavíkurbæ með vöxtum. Mun því að lokum vera greidd 15.000.000 kr. auk vaxta auk 400.000 kr. kaupverðs.
Tillaga fulltrúa D-lista um að fresta tillögunni og fara með málið í íbúakosningu var felld.
Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.