Samþykkt að afturkalla samningsumboð
Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðafélags Grindavíkur hefur sent frá sér ályktun þar sem samþykkt var samhljóða er að afturkalla samningsumboðið verði ekki kominn skriður á samningaviðræður í byrjun janúar.
„Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Grindavíkur kallar eftir ábyrgð Samtaka atvinnulífsins vegna yfirstandandi kjaraviðræðna samtakanna og Starfsgreinasambands Íslands. Formanni er falið að draga samningsumboð félagsins til baka frá Starfsgreinasambandi Íslands komist ekki skriður á kjaraviðræður í byrjun janúar eða ef Starfsgreinasambandið verður ekki búið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara,“ segir í álykuninni.
Einnig var formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur veitt fullt umboð til að leita eftir samstarfi við félög utan forystu SGS um samstarf í samningum við SA í byrjun árs 2019 ef ekki verður komið til móts við kröfur félaga í Verkalýðsfélagi Grindavíkur.
„Félagsmenn urðu samningslausir 1. janúar 2019 og ljóst er að SA hefur dregið lappirnar í samningaviðræðum enda liggur það fyrir að atvinnulífið sparar sér 4 milljarða á mánuði meðan ekki er samið,“ segir í tilkynningu frá félaginu.