Samþykkja hæð ofan á Hafnargötu 55
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt byggingaráform BLUE Eigna ehf. sem hafa óskað heimildar til að bæta einni hæð ofan á Hafnargötu 55 í Keflavík. Framkvæmdin hefur verið grenndarkynnt og athugasemdir bárust.
Húsið er í dag á tveimur hæðum með léttu þaki, með breytingu verður heimilt að byggja þriðju hæðina allt að 3.3m, frá núverandi þakkanti. Húsið stækkar um 560m2 sbr. uppdrætti JeES arkitekta ehf. dags. 6. júní 2022. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs dags. 16. júní 2022 var samþykkt að grenndarkynna erindið. Grenndarkynningu er lokið og athugasemdir bárust. Megin inntak athugasemda er skerðing útsýnis íbúa efstu hæða við Hafnargötu og skuggavarp á lóðir við Austurgötu. Umsækjanda var boðið að neyta andmælaréttar sem hann gerði með bréfi.
Byggingin er á lóð sem tilheyrir svæði sem er skilgreint í aðalskipulagi sem miðsvæði (M2) í þeim kafla greinargerðar aðalskipulagsins sem fjallar um svæðið kemur fram „Í samræmi við einkenni svæðisins og til að styrkja uppbyggingu þess er meiri þéttleika á M2 en öðrum atvinnusvæðum. Ekki er gert ráð fyrir stórum og rýmisfrekum verslunum. Hæðir húsa 3 – 5.“
Byggingaráformin og notkun fellur að stefnu aðalskipulags, en húsið verður með breytingunni þrjár hæðir og áfram sem verslun og skrifstofur. Það er óumdeilt að hækkunin veldur skerðingu á fjalla sýn og veldur því að skuggavarp eykst lítillega austan við bygginguna síðdegis. Hæð byggingar verður sambærileg við byggingar á gagnstæðri hlið götunnar og sunnan megin á aðliggjandi lóð. Áformin falla því ágætlega að byggðamynstrinu. Það er mat ráðsins að fyrirhuguð uppbygging og yfirbragð byggingarinnar sé til hagsbóta fyrir umhverfið á þessum hluta Hafnargötu, samræmist stefnu sveitarfélagsins og réttlæti þannig skert útsýni.