Samstarfssamningur milli HBT og Orku- og tækniskólans
Hydro Boost Technologies (HBT) og Orku- og tækniskólinn hafa undirritað samstarfssamning sem er ætlað að styrkja rannsóknargrunn, nýsköpun og fagþekkingu beggja aðila. Samningurinn mun efla tengsl HBT við hæfileikaríka og skapandi nemendur sem og gefa nemendum skólans einstakt tækifæri á að öðlast reynslu og innsýn inn í starfsaðferðir sem beitt er við þróun og framleiðslu tæknivara.
HBT vinnur að rannsóknum, þróun og framleiðslu á orkusparandi lausnum fyrir stórnotendur í orkufrekum iðnaði. Fyrirtækið er staðsett í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú í Reykjanesbæ. HBT framleiðir og selur vöru sem kallast rafstillir. Rafstillirinn er hannaður til þess að lágmarka launafl, viðnám og truflanir í rafkerfum. Búnaðurinn dregur úr rafmagnsnotkun, eldsneytisnotkun og stuðlar að aukinni endingu rafkerfisins. HBT vinnur einnig að rannsóknum á rafgreiningartækni og blæðingu vetnis inn í brunahólf véla. Kostir blæðingar er minni og betri eldsneytisnotkun auk þess dregur verulega úr mengandi efnasamböndum í útblæstri.