Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samstarf um þjónustu við fylgdarlaus börn
Ráðherra og starfsfólk og forráðamenn Suðurnesjabæjar.
Föstudagur 19. janúar 2024 kl. 06:07

Samstarf um þjónustu við fylgdarlaus börn

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Suðurnesjabær hafa gert með sér samstarfssamning varðandi þjónustu við fylgdarlaus börn sem koma til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd. Þar sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er innan Suðurnesjabæjar tekur barnavernd sveitarfélagsins utan um börn sem koma til landsins með flugi og óska eftir alþjóðlegri vernd við komuna til landsins. Mikil aukning hefur verið á fjölda barna sem koma til landsins í þessum tilgangi og hefur Suðurnesjabær tekið utan um börnin og átt um það verkefni mjög gott samstarf við mennta- og barnamálaráðuneyti.

Samkvæmt samningnum mun velferðarsvið Suðurnesjabæjar annast það verkefni að halda utan um málefni fylgdarlausra barna og mun öðrum sveitarfélögum standa til boða þjónusta sveitarfélagsins og búsetuúrræði ef rými er til staðar. Þannig geta önnur sveitarfélög mögulega flutt mál fylgdarlausra barna til Suðurnesjabæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fylgdarlaus börn á flótta eru almennt mjög viðkvæmur hópur og því mjög flókið að halda utan um þeirra mál.  Það er því ánægjulegt að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi gert samstarfssamning við Suðurnesjabæ um þetta mikilvæga verkefni. Það staðfestir hve vel starfsfólk sveitarfélagsins hefur staðið að málefnum barnanna, haldið utan um þau af alúð og fagmennsku og veitt þeim traust skjól.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu samstarfssamninginn föstudaginn 5. janúar 2024.

„Fylgdarlaus börn á flótta eru sérlega viðkvæmur hópur og verkefnið flókið. Það er aðdáunarvert hvernig Suðurnesjabær hefur brugðist við til að leysa þetta verkefni af fagmennsku og alúð og eru nú tvö búsetuúrræði starfrækt í sveitarfélaginu. Ljóst er að bregðast þarf við aukningu á komu fylgdarlausra barna og styðja við þjónustuna með farsæld barnanna að leiðarljósi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

„Suðurnesjabær lýsir ánægju með samstarfssamninginn, sem byggir á góðu og traustu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið um þetta mikilvæga málefni,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.