Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Samstarf um námskeið fyrir fólk í nýsköpun og vöruþróun
Mánudagur 13. september 2010 kl. 09:30

Samstarf um námskeið fyrir fólk í nýsköpun og vöruþróun

Frumkvöðlasetrið á Ásbrú og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hafa undirritað samstarfssamning varðandi námskeiðahald fyrir frumkvöðla, sprotafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem stunda nýsköpun og vöruþróun. Mun MSS sjá um utanumhald og skipulagningu þeirra námskeiða sem verða í boði í Frumkvöðlasetrinu.

Frumkvöðlasetrið á Ásbrú er rekið af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og er að hefja starfsemi í Eldey við Grænásbraut. Frumkvöðlasetrið býður fría handleiðslu og ráðgjöf, ýmis námskeið og fleira fyrir alla þá sem notið geta góðs af, hvort sem það eru frumkvöðlar, sprotafyrirtæki eða eldri fyrirtæki í rekstri sem hyggjast stunda nýsköpun og vöruþróun. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur um langt árabil meðal annars boðið ýmis námskeið fyrir atvinnulífið. Samstarfið við Frumkvöðlasetrið styrkir það námsframboð enn frekar. „Það er mikill akkur í því fyrir okkur að fá svona öflugan aðila til samstarfs um námskeiðahald í setrinu,“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, verkefnastjóri Frumkvöðlasetursins. „En það sem er mikilvægast er að fyrirtæki og frumkvöðlar á svæðinu nýti sér þetta. Við hvetjum fólk einnig til að koma óskum um námskeið á framfæri. Við erum hér til að efla aðila hér á svæðinu og því er mikilvægt að fá að vita beint frá þeim hvað það er sem þeir þurfa.“

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

„Dagskrá vetrarins er óðum að taka á sig mynd,“ segir Birna V. Jakobsdóttir , verkefnastjóri atvinnulífs hjá MSS. „Verið er að skipuleggja mörg spennandi og hagnýt námskeið og styrkir það framboð námskeiða og alla aðra þjónustu þegar aðilar á svæðinu vinna saman. Samstarfssamningur MSS og Frumkvöðlasetursins, á eftir að stuðla að enn betri þjónustu“.

Framundan í haust er námskeið í viðskiptaáætlunargerð (október) og námskeið þar sem sérstaklega verður lögð áhersla á fjármála- og rekstrarhluta viðskiptaáætlunarinnar (nóvember). „Fjármálahlutinn er yfirleitt sá hluti viðskiptaáætlunar sem fólki finnst erfiðast að vinna og því viljum við leggja sérstaka áherslu á þann hluta“, segir Þóranna. Frekari upplýsingar um námskeiðin, og skráningu, má finna á vef MSS, mss.is. Frekari upplýsingar um Frumkvöðlasetrið má finna á vefsíðu þess, incubator.asbru.is.


Á myndinni má sjá Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Guðjónínu Sæmundsdóttur, forstöðumann MSS, við undirritun samningsins. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson