Samstarf um fræðslu- og kynningarmál í Reykjanes jarðvangi
Á annan tug kennara frá Suðurnesjum og Króatíu skiptust á heimsóknum til landanna
Nýverið var undirritaður þjónustu- og samstarfssamningur milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Reykjanes UNESCO Global Geopark og GeoCamp Iceland sem er ætlað að efla og styrkja fræðslu- og kynningarstarf innan jarðvangsins.
Samkvæmt samningnum mun GeoCamp Iceland á komandi tveimur árum sinna sértækum verkefnum sem snúa að fræðslutengdum verkefnum, umsóknum í þróunarsjóði og kynningarstarfi, sér í lagi innan skóla og menntastofnanna á Reykjanesinu. Þá mun GeoCamp Iceland taka að sér að kortleggja fræðslu- og menntatengd verkefni, námsframboð og skólastarf innan svæðisins, sér í lagi þá starfsemi sem nýtir sér nærumhverfið og auðlindir svæðisins til kennslu í náttúrufræði og STEM-greinum.
Kennaraferðir í evrópska jarðvanga
Eitt af þeim verkefnum sem GeoCamp Iceland heldur utan um fyrir hönd SSS er styrkur sem sóttur var til Erasmus+ menntaáætlunar Evrópusambandsins og er ætlað að styrkja náttúrufræðikennslu, útikennslu og STEM-fög í jarðvangnum.
Landsskrifstofa Erasmus+ á Íslandi veitti ferðastyrki fyrir allt að átján grunnskólakennara af Suðurnesjunum til að sækja vikulangar vinnustofur í evrópskum jarðvöngum en fyrsta ferðin var farin til Danmerkur í lok mars.
Þar voru tveir jarðvangar heimsóttir, auk þess sem þátttakendur kynntu sér náttúrufræðikennslu í dönskum grunnskólum á árlegu Big Bang ráðstefnunni sem fór fram í Óðinsvéum dagana 20. til 21. mars.
Þess má geta að GeoCamp Iceland hefur nýverið lokið þátttöku í verkefni sem miðar að innleiðingu STEM-greina í króatískum grunnskólum og var styrkt af Uppbyggingarsjóði EEA/EFTA. Einn þáttur þess verkefnis var að tengja saman kennara og sérfræðinga á Íslandi við skólastjórnendur og kennara í Króatíu.
Sem liður í verkefninu fóru á annan tug kennara og sérfræðinga frá Íslandi í fjórar ferðir til Króatíu á síðasta ári, þar á meðal frá sex grunnskólum á Suðurnesjum. Þessir skólar tóku að sama skapi á móti sambærilegum fjölda króatískra kennara í fjórum heimsóknum þeirra til Íslands. Samstarfsskólar verkefnisins á Suðurnesjunum voru Stapaskóli, Heiðarskóli, Háaleitisskóli, Akurskóli, Grunnskólinn í Grindavík og Gerðaskóli, auk Þekkingarsetursins í Sandgerði.