Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samstaða – slysalaus sýn: Góður árangur fyrstu 100 daga ársins með áróðri og umferðareftirliti
Fimmtudagur 12. apríl 2007 kl. 15:27

Samstaða – slysalaus sýn: Góður árangur fyrstu 100 daga ársins með áróðri og umferðareftirliti

Samstaða, regnhlífarsamtök áhugahópa um umferðaröryggi um allt land, hafa unnið markvisst allt frá áramótum að því að kynna sýn sína um slysalaust Ísland. Á fyrstu 100 dögum samtakanna hefur orðið mikil fækkun alvarlegra slysa og dauðaslysa. Allt árið í fyrra létust 31 sem samsvarar banaslysi með 11 daga millibili, en nú hafa 2 látist á 100 dögum og er því um fimmfalt færri banaslys að ræða.

Að frumkvæði áhugahópsins um tvöfalda Reykjanesbraut var í ársbyrjun hafið átak í því að fjölga baráttuhópum um umferðaröryggi á landsvísu sem vinnur að því að upplýsa um hættur í umferðinni og mögulegar úrbætur hvert á  sínu landssvæði. Þá gæti Samstaða notað hina sameiginlegu rödd til að hafa áhrif á stjórnvöld hvað varðar vegabætur löggæslu og almennan umferðaröryggisáróður.

Fordæmi áhugahópsins á Suðurnesjum er gott þar sem ekkert banaslys hefur enn verið á Reykjanesbrautinni eftir að hluti hennar var tvöfaldaður fyrir um þremur árum. Árin þrjú þar á undan létust 18 einstaklingar á brautinni.

Steinþór Jónsson er forsvarsmaður Samstöðu og segir í samtali við Víkurfréttir að þau séu óhrædd við að setja markið hátt. „Þegar lagt er af stað í baráttu um slysalausa sýn í umferðinni er mikilvægt að átta sig á hve mikilvægt er að árangur náist í þessum málaflokki og tryggja að enginn sætti sig við meðaltöl fyrri ára þegar horft er til banaslysa í umferðinni. Hvert slys er einum of mikið hvernig sem við horfum á það.“

Fjölmiðlar hafa tekið virkan þátt í átakinu með Samstöðu þar sem tugir auglýsingar og áminningar samtakanna hafa birst í öllum helstu fjölmiðlum landsins sem og blöðum á landsbyggðinni á þessu ári. Einnig er sjónvarpsauglýsing í undirbúningi, en sú verður unnin í samvinnu við SagaFilm og frumsýnd í sumar ef fjármagn fæst.

Steinþór segir að þrátt fyrir góða byrjun í umferðinni þetta árið séu enn of margir sem stofna öðrum í hættu með glæfralegu aksturslagi. „Við getum ekki þakkað ökuníðingum sem ítrekað hafa verið teknir fyrir ofsaakstur síðustu daga og vikur þann árangur sem nú liggur fyrir, en ófáar fréttir um glæfraakstur þeirra hafa birst í fjölmiðlum undanfarið. En að sama skapi getum við þakkað löggæsluaðilum aukið eftirlit og Umferðarstofu stöðugar ábendingar um hvað betur megi fara í umferðinni.“ Steinþór bendir sérstaklega á árangur lögreglunnar á Akureyri um páskahelgina en þar var umferðin stórslysalaus, sem má þakka miklu eftirliti þar sem afskipti voru höfð af um þúsund bílum.

„Þá gefur aukið fjármagn til vegamála skv. nýrri samgönguáætlun sem og háar fjárhæðir til umferðaröryggismála sem samgönguráðherra kynnti einnig í síðasta mánuði ástæðu til að horfa jákvæðum augum fram á veginn og eykur tiltrú á slysalausri sýn í umferðinni til framtíðar. Við skorum á ökumenn að fara gætilega, spenna beltin og aka aldrei undir áhrifum áfengis.“
Frekari upplýsingar um starf Samstöðu má finna á heimasíðu samtakanna, www.nullsyn.is.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024