Samruni Landsbankans og Spkef genginn í gegn
Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók Landsbankinn í morgun 7. mars kl. 08.30, við rekstri Spkef. Allir starfsmenn sparisjóðsins eru nú orðnir starfsmenn Landsbankans og allur rekstur á ábyrgð hins sameinaða félags. Öll starfsemi Spkef er með eðlilegu sniði en nú undir merkjum Landsbankans.
Fundur með starfsfólki sem áður starfaði hjá Spkef var haldinn í morgun í Stapa í Reykjanesbæ.
Þar kom fram eftirfarandi:
* Öll útibú verða opin samkvæmt venju og viðskiptavinir geta leitað til eigin þjónustufulltrúa með fyrirspurnir. Reikningar og reikningsnúmer viðskiptavina verða óbreytt fyrst um sinn.
* Landsbankinn mun leitast við að tryggja sem flestum starfsmönnum sem áður störfuðu undir merkjum Spkef starf við hæfi.
* Engar afgerandi breytingar verða fyrst um sinn gerðar á starfsemi útibúa í byggðakjörnum þar sem Spkef var eina fjármálafyrirtækið.
* Fyrir liggur að útibú á þeim stöðum þar sem bæði Landsbankinn og Spkef hafa haft starfsemi , verða sameinuð. Þetta á við um Reykjanesbæ, Ólafsvík, Grindavík og Ísafjörð. Leitast verður við að bjóða starfsmönnum á þessum stöðum ný atvinnutækifæri innan Landsbankans.
* Fyrirsjáanlegt er að hagræðing verði á mörgum sviðum sem njóta stærðarhagkvæmni. Einhverjar breytingar á högum fólks eru óhjákvæmilegar. Ljóst er að ekki geta allir haldið sömu störfum á sama stað.
* Höfuðstöðvar Spkef í Reykjanesbæ verða strax hluti af höfuðstöðvum Landsbankans.
* Möguleikar verða kannaðir á starfsstöð á Suðurnesjum tengdri verkefnum höfuðstöðva Landsbankans.
* Starfsmönnum hins sameinaða banka sem komnir eru nærri eftirlaunaaldri verður boðinn starfslokasamningur óski þeir þess.
* Einar Hannesson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri tekur sæti í stýrihópi um samþættingu starfsemi Spkef og Landsbankans.
* Hópur sérfræðinga frá Landsbankanum starfar við hlið sérfræðinga í höfuðstöðvum Spkef til að liðka fyrir samruna.
Forsvarsmenn Landsbankans gera sér fulla grein fyrir því mikilvæga hlutverki sem Spkef hefur í samfélaginu á Suðurnesjum, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og á Hvammstanga, m.a. í menningar-, æskulýðs-, íþrótta og góðgerðarstarfi. Allir samningar sem Spkef hefur gert á þessum sviðum verða í heiðri hafðir út þetta ár en Landsbankinn áskilur sér rétt til endurskoða þá í góðu samstarfi við hlutaðeigandi að þeim tíma loknum.
Landsbankinn hefur þegar lýst þeim vilja sínum að starfa náið með hagsmunaaðilum á starfssvæði Spkef. Fundir með forsvarsmönnum sveitarfélaga, helstu samtaka atvinnurekenda og verkalýðsfélaga í þessari viku, eru fyrsta skrefið á þeirri leið.
Ráðgjafa- og þjónustuver Landsbankans verður opið lengur á kvöldin alla vikuna eða til kl. 21 og á laugardaginn frá kl. 11-15. Einnig má senda fyrirspurnir eða ábendingar á [email protected].
Frekari fréttir af samrunanum frá blaðamannafundi í morgun koma inn á vf.is á eftir.