Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samræmt verklag um velferð barna í Reykjanesbæ - 112 dagurinn 11. febrúar
Katrín Jóna Ólafsdóttir, deildarstjóri í Akurskóla, María Gunnarsdóttir, forstöðumaður barnaverndar, og Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, við afhendingu verklagsins.
Miðvikudagur 10. febrúar 2021 kl. 15:14

Samræmt verklag um velferð barna í Reykjanesbæ - 112 dagurinn 11. febrúar

Hinn árlegi 112 dagur verður haldinn á morgun 11. febrúar. Markmið dagsins er að kynna neyðarnúmerið 112 og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar. Leik-, grunn- og framhaldsskólar Reykjanesbæjar taka þátt í deginum með ýmsum hætti og veita börnum fræðslu, meðal annars með fræðslumyndböndum sem verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags og starfsmenn barnaverndar hafa tekið saman og sent stjórnendum skólanna. 

Áhersla á öryggi og velferð barna og ungmenna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að þessu sinni verður sjónum beint sérstaklega að barnavernd og öryggi og velferð barna og ungmenna. Fjallað verður um efnið frá sjónarhorni barna og ungmenna, 112, opinberra aðila, viðbragðsaðila og þeirra sem veita aðstoð í tengslum við barnavernd. Barnaverndarstofa mun kynna hlutverk barnaverndarnefnda um allt land og barnanúmerið 112.

Á vef Neyðarlínunnar www.112.is er að finna mikið af fræðslu, bæði ætluð börnum og fullorðnum. Foreldrar og aðrir forráðamenn eru hvattir til að kynna sér efnið og ræða við börnin um mikilvægi þess að þekkja neyðarnúmerið 112.

Samræmt verklag um velferð barna í Reykjanesbæ

Í tilefni dagsins hefur verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags ásamt starfsmönnum barnaverndar í Reykjanesbæ gefið út leiðbeinandi verklag um velferð barna. Það er fyrir alla þá sem starfa með börnum og ungmennum eða koma að umönnun barna með öðrum hætti þegar upp kemur grunur um vanrækslu, ofbeldi eða áhættuhegðun barna. Markmiðið er að innleiða og samræma verklag hjá starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum í Reykjanesbæ, að starfsfólk þekki tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, einkenni ofbeldis, vanrækslu og áhættuhegðunar hjá börnum og geti brugðist rétt við þegar þörf er á. Verklagið er nú aðgengilegt á vef Reykjanesbæjar. Verklaginu verður í framhaldinu fylgt eftir inn á stofnanir og starfsstaði í Reykjanesbæ af starfsmönnum barnaverndar og verkefnastjóra barnvæns sveitarfélags. 

Barnavernd Reykjanesbæjar leggur áherslu á að veita barnvæna þjónustu með því að virða, vernda og framfylgja réttindum hvers barns ásamt því að veita þeim viðeigandi þjónustu, umönnun, þátttöku og vernd. Auk þess að gefa börnunum tækifæri á að tjá skoðanir sínar miðað við aldur þeirra og þroska og taka þátt í ákvarðanatöku er varðar þeirra líf. Börn eiga rétt á að alast upp í friði, öryggi og við góðar uppeldisaðstæður og vernd gegn ofbeldi og vanrækslu. Reykjanesbær telur mikilvægt að þjónusta við börn og foreldra verði þverfagleg innan og milli sviða Reykjanesbæjar.