Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samræma niðurgreiðslu hjálpartækja fyrir heyrnar- og sjónskert börn
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.
Föstudagur 11. desember 2020 kl. 07:55

Samræma niðurgreiðslu hjálpartækja fyrir heyrnar- og sjónskert börn

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, hefur, ásamt fjórum öðrum þingmönnum, lagt fram tillögu til þingsályktunar um samræmda niðurgreiðslu hjálpartækja fyrir heyrnar- og sjónskert börn.

Í greinargerð með ályktuninni segir:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Stefna núverandi ríkisstjórnar er að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Eins og kerfið er nú eru mismunandi reglur um þátttöku í niðurgreiðslu eftir því hvort um er að ræða kaup á heyrnartæki annars vegar og gleraugum hins vegar.

Öll börn yngri en átján ára fá heyrnartæki greidd að fullu frá Sjúkratryggingum. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu annast endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum fyrir börn. Öll börn fram að átján ára aldri eiga rétt á gleraugnaendurgreiðslum. Börn þriggja ára og yngri eiga rétt á endurgreiðslum tvisvar á ári, börn fjögura til átta ára eiga rétt á endurgreiðslum árlega og börn níu til sautján ára eiga rétt á endurgreiðslum annað hvert ár. Upphæð endurgreiðslu miðast við styrk glerja og er frá 3.500 kr. á gler til 7.500 kr. á gler. Ef um er að ræða sterk sjónskekkjugler er viðbótargreiðsla eftir styrkleika frá 500 kr. til 1.500 kr. á gler. Líkt og hér kemur fram eiga börn á aldrinum níu til sautján ára rétt á endurgreiðslu annað hvert ár en sjón barna getur tekið breytingum innan þess tíma og þarf þá að leggja út fyrir kostnaði þar á móti. Þá þurfa börn oft og tíðum einnig sérstök gleraugu fyrir sund og íþróttir og þarf að taka tillit til þess.

Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að öll börn fái þá læknismeðferð og þau hjálpartæki sem þau þurfa án tillits til efnahags foreldra. Það er því mikilvægt að auka þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum fyrir börn þannig að þau verði að fullu endurgreidd.“

„Þingmennska er gefandi starf, sem kemur kannski mörgum á óvart. Þingmenn hafa tækifæri til að leggja fram þingmál sem stundum eru samþykkt á Alþingi og geta haft mjög jákvæð áhrif á líf fjölda fólk með einum eða öðrum hætti.

Fyrir nokkrum mánuðum hafði móðir úr Keflavík, R. Ása Ingiþórsdóttir, samband við mig og benti mér á ákveðið ójafnræði hvað varðar greiðsluþátttöku hins opinbera hvað varðar kaup á sjóntækjum fyrir börn annars vegar og heyrnartækjum hins vegar. Ég sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra í kjölfar þessarar ábendingar frá Ásu og þegar svar barst ákvað ég að leggja fram meðfylgjandi þingsályktun ásamt þingflokki Framsóknarflokksins,“ segir Silja Dögg.