Samræma atvinnustefnur sveitarfélaga á Suðurnesjum í eitt skjal
Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar tekur undir með Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum að nauðsynlegt sé að samræma í eitt skjal atvinnustefnur fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum. Ráðið hefur falið verkefnastjóra viðskiptaþróunar að koma stefnumálum Reykjanesbæjar á framfæri.
Á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum þann 19. febrúar var bókað: „Jafnframt tekur stjórn S.S.S. undir með stjórn MR [Markaðsstofu Reykjaness] og Heklunnar að nauðsynlegt sé að samræma í eitt skjal atvinnustefnur aðildarsveitarfélaga S.S.S., með það að markmiði að gera eina heildstæða atvinnustefnu fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum þar sem styrkleikar og áherslur allra aðildarsveitarfélaga ná fram að ganga. Þetta gætiv verið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurnesja. Framkvæmdastjóra falið að vinna verkefnið áfram.“ Nýtt tímabil Sóknaráætlunar Suðurnesja er að hefjast en m.a. eru markmið hennar að fjölga nýskráðum fyrirtækjum um 5% og auka hlutdeild skapandi greina og hátækni í veltu atvinnulífs um 20% á gildistíma hennar.
Mikilvægt er að fá upplýsingar um áherslur allra sveitarfélaga á Suðurnesjum í atvinnumálum svo hægt sé að vinna eina heildstæða stefnu fyrir Suðurnes. Í svæðisskipulagi Suðurnesja eru atvinnusvæði skilgreind án þess að fram komi beint hvernig atvinnustarfsemi verði staðsett á þeim.
Eins og fram kemur í bókun stjórnar S.S.S. er hægt að vinna atvinnustefnu sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurnesja. Kostnaður aðildarsveitarfélaga fælist helst í vinnuframlagi starfsmana og kjörinna fulltrúa en annar kostnaður yrði greiddur af S.S.S., segir í bréfi framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum til bæjarstjóra á Suðurnesjum.