Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samningur undirritaður um uppbyggingu leik- og grunnskóla á gamla varnarsvæðinu
Miðvikudagur 8. ágúst 2007 kl. 17:14

Samningur undirritaður um uppbyggingu leik- og grunnskóla á gamla varnarsvæðinu

Reykjanesbær, Keilir og Hjallastefnan undirrituðu í dag  þríhliða samkomulag um uppbyggingu og rekstur leik- og grunnskóla á háskólasvæði Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs á Keflavíkurflugvelli.

Hjallastefnan mun opna leikskólann sem hlotið hefur nafnið Völlur,  hinn 15. ágúst nk. í húsnæði sem áður hýsti leikskóla sem bandaríski herinn rak.  Grunnskóli fyrir 1.-4. bekk verður jafnframt starfræktur frá og með þessu hausti en eldri börn á svæðinu sækja nám sitt í aðra grunnskóla Reykjanesbæjar. Starf skólanna verður í samræmi við Hjallastefnuna en fyrirtækið hefur langa reynslu af rekstri leikskóla með góðum árangri. Hjallastefnan hefur þegar ráðið stjórnendur og starfsfólk til starfa við báða skólana. Markmið samkomulagsins er að byggja upp öfluga og framsækna skóla sem hafi bestu mögulegu aðstæður til þróunar og nýsköpunar í íslensku skólakerfi.?Reykjanesbær og Keilir lýsa jafnframt yfir þeim vilja sínum að standa sameiginlega að frekari framþróun skólastarfs og menntunar á svæðinu á öllum sviðum á næstu árum í samstarfi við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla á svæðinu sem og íslenska háskóla og ráðuneyti menntamála. Markmið slíks samstarf verði nýsköpun í skóla og menntamálum.

Keilir og Reykjanesbær vinna nú að uppbyggingu háskólasamfélags á gamla varnarsvæðinu í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og munu um 700 íbúar flytja þangað um miðjan ágúst. Auk leik- og grunnskóla verður einnig starfrækt íþróttamiðstöð á svæðinu, verslun, veitingastaður og kaffihús.
Þau Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis ehf. og Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. undirrituðu samninginn.

Mynd: Frá undirritun samningsins í dag. VF-mynd: Magnús Sveinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024