Samningur undirritaður um rekstur leikskólans Akurs
Í dag var skrifað undir samning við Hjallastefnuna ehf. um rekstur leikskólans Akurs við Tjarnabraut í Reykjanesbæ sem er nýr 6 deilda leikskóli fyrir 140 börn.
Leikskólinn tekur til starfa í september nk. og mun hann starfa eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Þannig starfa stúlkur og drengir sitt í hvoru lagi stóran hluta dagsins en æfa svo samskipti og virðingu kynjanna reglubundið. Leikefniviður er einfaldur og umhverfið áreitalítið og kynjanámskrá Hjallastefnunnar er í fyrirrúmi með einstaklingsstyrkingu og eflingu félagsfærni hjá hverju barni.
Samningurinn gildir til ársins 2012 en leikskólastarf verður samkvæmt lögum og reglugerð um aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Reykjanesbæjar.
Fasteign hf. á húsnæði leikskólans en stærð lóðar er 4.745m2. Brúttóstærð húsnæðis er 1.110m2.
Hjallastefnan ehf. mun reka leikskólann og Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir verður leikskólastjóri.
Frekari upplýsingar um Hjallastefnuna er hægt að finna á hjalli.is/akur.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson