Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 15. janúar 2003 kl. 16:18

Samningur milli sveitarfélaga um meðferð barnaverndamála

Samningur hefur verið gerður milli Gerðahrepps, Sandgerðisbæjar, Vatnsleysustrandarhrepps og Reykjanesbæjar um meðferð barnaverndarmála. Tilkoma þessa samnings eru ný barnaverndarlög sem tóku gildi 1. júní 2002 en þar segir að fámennari sveitarfélög skuli hafa samvinnu við önnur sveitarfélög um kosningu barnaverndarnefndar. Samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skal ekki vera undir 1.500.Ný barnaverndarnefnd kom saman mánudaginn 9. desember s.l. og er nefndin skipuð 5 fulltrúum frá Reykjanesbæ, einum fulltrúa frá Gerðahreppi, einum fulltrúa frá Sandgerði og einum varafulltrúa frá Vatnsleysustrandarhreppi. Ef málefni sem varða Vatnsleysustrandarhrepp eru til umræðu á barnaverndarnefndarfundi víkur einn aðalfulltrúi Reykjanesbæjar fyrir varafulltrúa Vatnsleysustrandarhrepps.

Nefndina skipa eftirtaldir aðilar:
Reykjanesbær:
Árnína St. Kristjánsdóttir, formaður,
Ingibjörg Hilmarsdóttir,
Ólafur Grétar Gunnarsson,
Alma Vestmann,
Ketill Jósefsson,
Sandgerði:
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Gerðahreppur:
Guðrún Alfreðsdóttir
Vatnsleysustrandarhreppur:
Sædís Guðmundsdóttir.

Barnaverndartilkynningar eiga að berast sem hér segir:
Sandgerði:
Félagsmálastjóri er starfandi í Sandgerði og mun hún sinna barnaverndarmálum þar áfram eins og áður. Barnaverndartilkynningar í Sandgerði berist til Gyðu Hjartardóttur, félagsmálastjóra í síma 423-7555 eða til Hólmfríðar Skarphéðinsdóttur í síma 869-1465.
Garður:
Í Garðinum mun Einar Ingi Magnússon, sálfræðingur sinna barnaverndarmálum og eiga barnaverndartilkynningar að berast honum í síma 896-0820, Sigurði Jónssyni, sveitarstjóra í síma 422-7150 eða Guðrúnu Alfreðsdóttur í síma 864-2393.
Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur:
Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar mun sinna barnaverndarmálum í Reykjanesbæ og Vatnsleysustrandarhreppi og skulu barnaverndartilkynningar berast til stofnunarinnar í síma 421-6700 eða til Rannveigar Einarsdóttur, yfirfélagsráðgjafa í síma 863-9094.

Athygli er vakin á 16. gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002 en þar segir:
“Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.
Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.”

Almenningur er því hvattur til að tilkynna til Barnaverndarnefndar Gerðahrepps, Sandgerðisbæjar, Vatnsleysustrandarhrepps og Reykjanesbæjar ef ofangreind skilyrði eru fyrir hendi.

Rannveig Einarsdóttir,
yfirfélagsráðgjafi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024