Samningsdrög um orkusölu liggja fyrir
Frumdrög að samningi liggja fyrir á milli Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um sölu á raforku til Norðuráls vegna stækkunar álverksmiðjunnar á Grundartanga. Tæknilega er ekkert sem mælir gegn því að framkvæmdir við nýja jarðgufuvirkjun hefjist á Reykjanesi og miðar undirbúningur Hitaveitu Suðurnesja að því. Í viðtali við Víkurfréttir í síðustu viku sagði Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja að rannsóknir við fjórar borholur á Reykjanesi sem Hitaveitan hefur staðið að myndu flýta fyrir verkefninu. Gert er ráð fyrir að virkjun Hitaveitunnar á Reykjanesi vegna stækkunar Norðuráls verði á stærðarbilinu frá 70 til 90 megavött og að kostnaður vegna virkjunarinnar verði á bilinu 7 til 9 milljarðar króna. Ársvelta fyrirtækisins mun aukast um einn milljarð króna.
VF-ljósmynd/JKK: Starfsmenn Jarðborana við borun á holu 13 á Reykjanesi í sumar.