Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samningar við Norðurál í biðstöðu
Fimmtudagur 24. janúar 2013 kl. 07:49

Samningar við Norðurál í biðstöðu

HS Orka er í samningaviðræðum við Norðurál um að útvega 150 MW í álverið í Helguvík. Stjórnendur HS Orku telja sig geta útvegað þessa orku innan nokkurra ára en nú þegar eru laus 80 MW úr Reykjanesvirkjun sem gætu farið strax í að knýja áfram vinnslu í Helguvík. Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, segir samningaviðræður í biðstöðu.

„HS Orka hefur ekki náð samningum við Norðurál með orkuafhendingu í Helguvík. Samningaviðræðum hafði miðað vel fram að áramótum en nú vitum við ekki hvernig staðan er á málinu. Landsnet hækkaði gjaldskrá sína um 20% um áramótin sem lendir alfarið á okkur og minnkar arðsemina.

Við vorum búnir að ná saman við Norðurál um verð en þetta breytir stöðunni. Staðan er einfaldlega þannig að við vitum ekki hvort við náum samningum í næstu viku – eða hreinlega eftir tíu ár. HS Orka getur útvegað þessi 150 MW innan nokkurra ára en Norðurál er einnig háð öðrum með orku. Úr því að þeir eru hálfpartinn búnir að reisa álverið þá ætti að vera hvati fyrir því að láta hjólin snúast,“ sagði Júlíus.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024