Samnemendur Priyönku hjá Keili skrifa Allsherjarnefnd Alþingis meðmælabréf
Útlendingastofnun hefur neitað Priyanka Thapa, 22 ára konu frá Nepal um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Priyanka hefur unnið sem au-pair hér á landi í rúmt ár og er búsett í Vogum á Vatnsleysuströnd. Priyanka stundar nám við Háskólabrú Keilis.
Priyanka vill ekki fara aftur til Nepals þar sem hún verður neydd í hjónaband með manni sem hún hefur aldrei hitt. Úrskurði Útlendingastofnunar verður áfrýjað.
Samnemendur Priyönku hafa skrifað Allsherjarnefnd Alþingis meðmælabréf sem afhent verður á morgun. Þá hefur verið stofnuð baráttusíða til stuðnings Priyönku Thapa á Facebook. Þar segir: „Pryanka er afburðanemandi á Háskóalbrú Keilis en kemur til með að missa landvistarleyfi sitt á Íslandi innan nokkura daga ef ekkert verður að gert“.
Fjölmargir hafa skrifað inn á stuðningssíðuna og þar á meðal er Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis. „Nú reynir á hvort mannréttindi eru talin einhvers virðis hérlendis,“ segir Hjálmar á síðunni.
Fyrir fáeinum vikum var greint frá máli Priyönku í Ríkissjónvarpinu. Eftirfarandi frétt er af vef RÚV.
Priyanka Thapa, ung nepölsk kona, sem búið hefur hér á landi í rúmt ár, hefur sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hún vill ekki fara aftur til Nepals þar sem hún verður neydd í hjónaband með manni sem hún hefur aldrei hitt.
Priyanka Thapa er 22 ára og kom hingað til lands til að starfa sem au-pair hjá fjölskyldu í Vogum á Vatnsleysuströnd. Með hjálp fjölskyldunnar skráði hún sig í nám við Keili í Reykjanesbæ en það sambærilegt við stúdentspróf. Eftir að hafa kynnst lífinu hér segist hún ekki getað hugsað sér að snúa aftur til Nepals. „Þetta er eins og nýr heimur fyrir mér. Munurinn á heimaslóðum mínum og Íslandi er slíkur að það er eins og ég komi frá annarri öld,“ segir Priyanka. ??
Faðir hennar og bróðir létust báðir nýlega og nú er það hlutverk Priyönku að giftast manni sem getur séð um að framfleyta fjölskyldunni. „Ég fæ enga menntun ef ég fer aftur heim vegna þess að það sem bíður mín er að ég neyðist til að giftast manni sem ég þekki ekki, manni sem ég hef jafnvel ekki séð.“
Flestir foreldar í Nepal velja maka fyrir börn sín eins og venjan hefur verið í margar aldir. Priyanka vill ekki bregðast móður sinni en kysi frekar að senda henni pening frá Íslandi. „Eftir að ég kom hingað hef ég áttað mig á því að við konur getum haft réttinn til að velja hvaða leið við förum og hvað við tökum okkur fyrir hendur,“ segir Priyanka.
Námið hefur gengið vonum framar. Hrafnhildur Jóhannesdóttir, stærðfræðikennari hjá Keili, segir að Priyanka sé svo dugleg og samviskusöm að hún sé orðin besti nemandi skólans í stærðfræði.
Leyfið sem Priyanka fékk til að starfa hér er runnið út og hefur hún nú sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hún má vera á landinu þangað til umsókn hennar verður afgreidd í febrúar.
„Eftir að hafa verið hér í eitt ár hef ég öðlast mikinn styrk og mikið sjálfstraust. Ég vil ekki giftast manni sem ég þekki ekki og vil ekki lifa lífinu í ánauð,“ segir Priyanka Thapa.