Samkomulag um slökkviliðsmál á Keflavíkurflugvelli
Sandgerðisbær og Isavia ohf. undirrituðu samkomulag sl. föstudag um skipan björgunar, slökkviliðs- og eldvarnamála á starfsvæði Isavia á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt samkomulaginu einskorðast starfsemi Isavia á sviði björgunar- og slökkviþjónustu frá 1. mars nk. við verkefni sem falla undir loftferðalög og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra. Sandgerðisbær mun frá sama tíma sinna slökkviliðsmálum og brunavörnum samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000 í öllu sveitarfélaginu sem nær yfir stóran hluta af starfsvæði Isavia.
Það er vilji beggja aðila að standa vel að þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru og verða í framhaldi af þessu samkomulagi gerðar áætlanir um gagnkvæma aðstoð í slökkviliðsmálum.
Eftir undirskrift í flugstöðinni hlustuðu bæjarstjóri og bæjarfulltrúar Sandgerðina á kynningu starfsemi Isavia. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia sýndi í máli og myndum hversu starfsemin er orðin viðamikil. Flugstöðvarsvæðið er að mestu leyti í landi Sandgerðis og njóta heimamenn þess í árlegum tekjum af landinu.
Sandgerðingar hlustuðu á kynningu forstjóra Isavia á viðamikilli starfsemi fyrirtækisins eftir undirskrift samningsins. Á efri myndinni má sjá f.v. Ómar Sveinsson frá Isavia, Björn Óla Hauksson, forstjóra Isavia, Sigrúnu Árnadóttur, bæjarstjóra og Ólaf Þór Ólafsson, forseta bæjarstjórnar Sandgerðis. VF-myndir/pket.