Samkomuhúsið aftur í eigu Sandgerðinga
- hefur verið félagsheimili, fangelsi, dansskóli, íþróttahús og kvikmyndahús.
„Þetta er gleðidagur. Það er afar ánægjulegt að aðhaldsaðgerðir síðustu ára skili sér m.a. í því að handbært fé hefur aukist og nú eignumst við aftur án lántöku þetta merka hús sem á sér sérstakan stað í hjörtum bæjarbúa,“ segir Sigursveinn B. Jónsson formaður bæjarráðs Sandgerðisbæjar.
Í dag gengur Sandgerðisbær frá endurkaupum á Samkomuhúsi bæjarins og verður handbært fé bæjarsjóðs nýtt til kaupanna. Kaupin eru liður í stefnu bæjarstjórnar um að endurkaupa í áföngum þær eignir sem leigðar hafa verið af Eignarhaldsfélaginu Fasteign.
Nýbygging Grunnskóla Sandgerðis var keypt á síðasta ári með handbæru fé og Samkomhúsið bætist við í dag. Í vinnslu eru áætlanir um endurkaup á Íþróttamiðstöðinni og eldri hluta grunnskólans.
Samkomuhúsið á sér merka sögu en það var byggt á árunum 1944 til 1946 og hafði Knattspyrnufélagið Reynir forgöngu um byggingu þess. Kvenfélagið Hvöt, Verkalýðs- og sjómannafélag Miðneshrepps og Miðneshreppur lögðu einnig sitt af mörkum til byggingar hússins. Samkomuhúsið er hluti af sögu samfélagsins í Sandgerði og hefur sinnt gleði- og sorgarstundum bæjarbúa. Samkomuhúsið var allt í senn, félagsheimili, fangelsi, dansskóli, íþróttahús og kvikmyndahús.