Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samkeppniseftirlit úrskurðar gegn Aðalstöðvarbílstjórum
Fimmtudagur 12. júlí 2007 kl. 18:52

Samkeppniseftirlit úrskurðar gegn Aðalstöðvarbílstjórum

Ekki er að kyrrast um á leigubilamarkaðnum á Suðurnesjum þar sem leigubílstjórar á Aðalstöðinni deila við forsvarsmenn Nýju leigubílastöðvarinnar.


Forsaga málsins er sú að NL keypti rekstur Aðalbíla og BSH af Ný-ung ehf. í vor en í framhaldinu sögðu nær allir bílstjórar stöðvanna upp samningi við fyrirtækið og stofnuðu þeir nýja stöð, á gömlum grunni þó, Aðalstöðina.

Eftir það hafa gengið kæru-, og klögumál milli stöðvanna en nýverið úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að bílstjórarnir hefðu brotið samkeppnislög með uppsögn samninga og stofnun nýrrar stöðvar. Rökstuðningur með úrskurðinum er sá að hver leigubílstjóri sé í raun fyrirtæki og lúti lögum sem slíkt og því sé samvinna bílstjóra um að hætta hjá NL og stofna nýja stöð dæmi um samráð milli keppinauta sem hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Þeim var þó ekki gerð nein refsing.


Einar Ágústsson, framkvæmdastjóri NL, sagði í samtali við Víkurfréttir að þessi úrskurður væri vonandi upphafið að sáttum í málinu og eflingu þjónustu á svæðinu. „Aðalbílar eru óbreytt eining sem verður efld og við teljum að nú sé tækifæri til að sækja fram.“


Ingólfur Möller Jónsson, stöðvarstjóri Aðalstöðvarinnar, var ómyrkur í máli yfir úrskurðinum. „Við teljum þetta ekki vera endanlegan úrskurð þar sem Samkeppniseftirlitið skoðar ekki samninginn sem er gerður þegar Aðalbílar eru seldir. Þeir halda að það sé hægt að selja okkur eins og búpening en við munum áfrýja þessu. Við viljum bara fá að vinna okkar vinnu í friði en nennum ekki að vera eyða tímanum í svona vitleysu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024