Samkeppni um sumarstarfsfólk
Næg sumarvinna á Keflavíkurflugvelli.
Komin er samkeppni um starfsfólk á Suðurnesjum, fleiri sækja um mörg störf og aukning hefur verið í atvinnuumsóknum af höfuðborgarsvæðinu, segja starfsmannastjórar þriggja stórra vinnuveitenda á Keflavíkurflugvelli. Það vakti athygli þegar stærstu vinnuveitendurnir í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar auglýstu sumarstörf í fyrsta tölublaði Víkurfrétta á þessu ári, fyrr en áður. Mátti álykta að þeir gerðu ráð fyrir harðari samkeppni um starfsfólk nú en áður.
„Fyrir atvinnuleitendur er þetta lúxusvandamál því margir auglýsa og ráða inn stóran hóp fólks. Ég efast um að það séu auglýst svona mörg störf hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Svala Guðjónsdóttir starfsmannastjóri IGS. Þau auglýstu fyrr eftir fólki í ár og umsóknirnar eru ekki færri en í fyrra. „Yfirleitt eru þetta framhaldsskóla- og háskólanemar sem sækja um mörg störf til að tryggja sér þau og við sjáum töluvert af umsóknum úr Hafnarfirði. Sumartímabilið hefur lengst samhliða eflingu í ferðaþjónustu og það býr til fleiri störf hjá okkur.“ Spurð segir Svala að IGS hafi ekki auglýst utan Suðurnesja en þau sjái töluvert af umsóknum úr Hafnarfirði. „Við bjóðum tímabundnar ráðningar og sjáum ekki fyrr en seinni hluta sumar hvort fastráðið verður í framhaldinu. Ef Icelandair stækkar þá stækkum við. Fleiri flugfélög hafa einnig tilkynnt að þau ætla að fjölga flugferðum og það er mjög gott fyrir svæðið hér. Svo hefur fólk var um hvar það vill vinna. Mikil atvinna í boði á Suðurnesjum.“
Æ fleiri ráðnir inn á haustin
500 manns hafa sótt um störf hjá Airport Associates og eru það um 300 færri en fyrir fimm árum. „Ég var farin að kvíða fyrir því að manna sumarið því það er talsverð aukning hjá okkur, eða 20% aukning í umsvifum hjá okkur á milli ára. Við höfum ráðið fastráðið æ fleiri á haustin,“ segir Thelma Guðlaugsdóttir, starfsmannastjóri. Gert er ráð fyrir að ráða 320 starfsmenn þangað í sumar. „Við auglýstum líka í Fréttablaðinu því það er klárlega komin samkeppni um starfsfólk á svæðinu og höfum því lagt áherslu á að bjóða betri kjör en samkeppnisaðilar. Einnig eru kjarasamningar lausir og við bíðum eftir hvað kemur út úr því.“ Þetta árið er fyrirtækið með 150 fastráðna starfsmenn sem er 30 fleiri en árið áður og er útlit fyrir enn fleiri fastráðningar í haust.
Aukin umsvif kalla á fleiri vaktir
Um 1500 atvinnuumsóknir hafa borist Isavia og Fríhöfninni og umsóknir um störf hjá Isavia hafa tvöfaldast. „Margir sækja um sömu störfin, jafnvel öll störfin og það útskýrir aukninguna. Töluverður fjöldi umsækjenda er frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sóley Ragnarsdóttir, starfsmannastjóri hjá Fríhöfninni og Isavia. Miklar framkvæmdir séu einnig á flugvallarsvæðinu og margir verktakar sem einnig ráði til sín fólk. „Aukin umsvif hafa kallað á fleiri kvöldvaktir og næturvaktir og við höfum alveg lent í því að vera ekki með nægan mannskap á haustin og leitað þá til umsækjenda. Annars erum við við erum heppin með heimtur og fólki finnst gott að vinna hjá okkur.“ Í annað skipti í ár eru vinnustofur fyrir vopnaleitina og Fríhöfnina og komast 500 umsækjendur í viðtöl, eða mun fleiri en áður. „Við höfum fjölgað starfsfólki á undanförnum árum. Svokölluð sumarstörf ná í raun alveg fram í desember. Á haustin er traffíkin orðin svo mikil að okkur veit ekki af starfsfólki. Flestir sem hafa tök á að vera hjá okkur fram að jólum fá vinnu,“ segir Sóley. Ráðið verði í stöður 230 manns til beggja fyrirtækja og einnig sé búið að fastráða marga sem komið hafi inn í fyrra. „Heildarfjöldi umsókna 2014 var 2633, þær voru 2207 árið á undan. Þetta sýnir líka að Isavia er orðinn vinsæll vinnustaður, í heild vinna 850 fyrir utan sumarstörf.“