Samkaup opnar valdar verslanir fyrir eldra fólk og viðkvæma
Samkaup hefur ákveðið að opna tólf verslanir Nettó og fimmtán verslanir Kjörbúðarinnar eingöngu fyrir þá sem eldri eru, með undirliggjandi sjúkdóma eða viðkvæmir. Verslanirnar, sem eru um land allt, verða opnar fráklukkan 9-10 alla virka daga fyrir þessa tilteknu hópa, frá og með þriðjudeginum 17. mars og á meðan samgöngubann er í gildi. Þetta er gert til að koma til móts við þá hópa sem eru í mestri hættu út af kórónaveirunni, Covid-19.
Ítarlegar verklagsreglur verða viðhafðar í þessum verslunum. Eins og í öllum verslunum Samkaupa, sem eru um 60 talsins, verða allir snertifletir, þar á meðal hurðahúnar, hurðar á kælum og frystum, posar, áhöld við afgreiðslu, handkörfur og innkaupavagnar, sótthreinsaðir og þessum verslunum verða allir starfsmenn með grímur og einnota hanska við afgreiðslu. Þá hefur þeim tilmælum verið beint til allra starfsmanna sem eru ekki við afgreiðslu að vera ekki í samneyti við viðkvæma einstaklinga.
Samkaup fara þess á leit við viðskiptavini sína að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis og halda tveggja metra fjarlægð á milli sín. Þá mælist Samkaup til þess við þessa hópa að reyna eftir fremsta megni að nota snertilausar greiðslur og forðast að nota peninga. Þá hvetur verslunarkeðjan viðskiptavini að huga vel að hreinlæti, því fyrst og síðast er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin.
Netverslun að komast í samt lag
Gríðarleg ásókn hefur verið í netverslun Nettó síðustu daga og hafa orðið einhverjar tafir á afhendingu á vörum. Brugðist hefur verið við með því að fjölga starfsfólki og bílstjórum.
„Starfsfólk okkar hefur unnið kraftaverk síðustu daga við að koma vörum heim og viðskiptavinir hafa sýnt þessu skilning, enda mikill samhugur hjá þjóðinni núna,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Nettó. „Frá og með deginum í dag má búast við að afgreiðsla í netversluninni verði með eðlilegum hætti og vörurnar skili sér upp að dyrum á tilsettum tíma.“
Verslanir sem verða opnar sérstaklega fyrir eldri borgara og viðkvæma frá klukkan 9 –10 á morgnana, frá og með 17. mars.
Nettóverslanir á Suðurnesjum sem bjóða þennan opnunartíma:
Nettó Grindavík
Nettó Iðavöllum
Verslanir Kjörbúðarinnar á Suðurnesjum sem bjóða þennan opnunartíma:
Garði
Sandgerði