Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samkaup og Hjálpræðisherinn vinna saman gegn matarsóun
Bergrún Ólafsdóttir og Gunnur Líf Gunnarsdóttir við undirritun samningsins
Föstudagur 4. nóvember 2022 kl. 09:33

Samkaup og Hjálpræðisherinn vinna saman gegn matarsóun

Verkefnið Hættum að henda, frystum og gefum sett í gang. Prufur hafnar á Akureyri og á Reykjanesi og stefnan tekin á höfuðborgarsvæðið eftir áramót.

Hættum að henda, frystum og gefum er yfirskrift verkefnis sem Samkaup og Hjálpræðisherinn hafa gert samning sín á milli um að vinna að. Um ræðir verkefni sem hverfist um að draga úr matarsóun á matvælum hjá Samkaupum og styðja þannig við velferðarverkefni Hjálpræðishersins á landsvísu. Verkefnið er þá þegar farið af stað og standa prófanir yfir á Akureyri og í Reykjanesbæ fram til áramóta og hefst svo undirbúningur fyrir enn umfangsmeiri prófanir á Reykjavíkursvæðinu á nýju ári.

Auk þess að styðja við verkefnið í formi matargjafa sér Samkaup um að útvega verkefnisstjóra sem kemur til móts við verkefnastjóra hjá Hjálpræðishernum. Þá mun Hjálpræðisherinn annast fræðslu sem þykir henta hverju sinni fyrir starfsfólk Samkaupa er varðar verkefnið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við erum að vinna í að setja upp einfalt ferli fyrir verslanir Samkaupa svo matvælin nýtist sem best, enda er það hagur okkar allra sem samfélag að draga sem mest úr matarsóun og það er nokkuð sem við höfum gert um árabil hjá Samkaupum. Við fögnum þessu samstarfi ákaft enda deilum við hringrásarhugsjóninni með Hjálpræðishernum og við hlökkum mikið til að þróa frekari framtíðarsýn og áætlanir sem snúa að innleiðingu verkefnisins á enn fleiri stöðum á komandi misserum,” segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa.

„Þetta samstarf er algjört tímamóta verkefni fyrir okkur hjá Hjálpræðishernum. Við erum að taka á móti fjölbreyttum hópi fólks til dæmis á Reykjanesi sem virkilega þarf á þessari aðstoð að halda. Þetta er mjög þarft samfélagsverkefni sem við sjáum fyrir okkur að muni aðeins stækka á næstunni. Það er ómetanlegt að geta gefið fólkinu okkar að borða en ekki síður mikilvægt að geta með þessu gefið fólki tækifæri á að taka þátt og veita fólki hlutverk og tilgang. Meðal þeirra sem koma til okkar eru til dæmis kokkar, sem svo taka þátt í að töfra fram gómsætan mat úr hráefninu sem við fáum frá Samkaupum og auk annarra verkefna í þessum dúr, ” segir Bergrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri Hjálpræðishersins á Reykjanesi.