Samkaup í Njarðvík verður NETTÓ
SamkaupÚrval í Njarðvík verður breytt í NETTÓ. Þetta staðfestir Sturla Gunnar Eðvarðsson forstjóri Samkaupa í samtali við Víkurfréttir. Hann segir undirbúningsvinnu vegna breytinganna vera komna á fullt og vonir standi til að breytingin hafi gengið í gegn fyrir páska.
Sturla segir breytinguna vera svar fyrirtækisins við því ástandi sem nú ríki. NETTÓ sé verslun sem bjóði lægra vöruverð. Farið verður í umfangsmiklar breytingar á verslunarhúsnæðinu og innréttuð verður glæsilegasta verslun á Suðurnesjum að sögn Sturlu. Aðspurður um kjötborðið í SamkaupÚrval í Njarðvík, segir Sturla að það verði ekki í sömu mynd. Hins vegar verði kappkostað að hafa mikið og gott úrval í ferskvöru. Versluninni verður lokað í einhvern tíma á meðan breytingar verða gerðar innandyra. Sturla vonaðist þó til að það verði ekki margir dagar.
Óhjákvæmilega þarf að segja upp starfsfólki vegna þessara breytinga. Sagði Sturla að starfsmönnum í helgarvinnu og hlutastörfum hafi verið sagt upp störfum en um er að ræða um 8 störf.
SamkaupÚrval í Njarðvík er lokað í dag vegna vörutalningar. Viðskiptavinir sem fóru um verslunina síðdegis í gær tóku eftir að víða voru hillur við það að verða tómar. Sturla sagði ástæðuna vera fjölmargar frídaga í tengslum við jól og áramót. Erfiðlega hafi gengið að fá vörur frá birgjum, eins og oft vill vera á þessum tíma. Allar hillur ættu hins vegar að vera orðnar fullar að nýju í fyrramálið þegar verslunin opnar aftur eftir vörutalningu.
Myndir: Hillur í SamkaupÚrval voru sumar hverjar við það að tæmast síðdegis í gær. Fjölmörgum frídögum og erfiðleikum við að fá vörur frá birgjum er um að kenna.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson