Samkaup, Heimkaup og Orkan taka upp könnunarviðræður
Könnunarviðræður um mögulegt samstarf eða samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar ásamt dótturfélögum eru hafnar að beiðni SKEL fjárfestingafélags hf. Viðræðurnar byggja á yfirlýsingu Samkaupa hf. og SKEL fjárfestingarfélags hf., sem er aðaleigandi Heimkaupa og Orkunnar.
Það er mat stjórnar Samkaupa að með mögulegu samstarfi eða samruna eins eða fleiri félaga felist möguleikar sem geti stutt við framtíðaráætlanir félagsins. Samkaup hefur áður upplýst um áform sín um skráningu á markað. Bæði félög hafa ráðið utanaðkomandi ráðgjafa sem munu leiða öflun gagna á meðan viðræðum stendur og tryggja að unnið sé samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.
„Samkaup hafa aukið hlutdeild sína á matvörumarkaði á undanförnum árum, en það eru enn mikil tækifæri til að bjóða fjölbreyttara vöruúrval og þjónustu um allt land með frekari vexti. Með þessum viðræðum viljum við skoða hvort við getum náð þessum markmiðum með mögulegum samruna,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa. „Það eru spennandi tímar framundan hjá Samkaupum og við finnum fyrir miklum áhuga og trú á það sem við höfum verið að gera. Nýleg kaup SKEL á 5% hlut Samkaupum er til marks um það.“
Upplýsingar um Samkaup, Orkuna og Heimkaup:
- Samkaup reka rúmlega 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Hjá félaginu starfa um 1400 starfsmenn í rúmlega 660 stöðugildum.
- Orkan starfrækir 72 orkustöðvar, 14 þvottastöðvar undir merkjum Löðurs, 6 hraðhleðslustöðvar, 2 vetnisstöðvar og 1 metanstöð. Þá á félagið 32 fasteignir og lóðir víðs vegar um landið, auk annarra eigna.
- Heimkaup reka 7 apótek undir merkjum Lyfjavals, netverslunina Heimkaup og 9 þægindaverslanir undir merkjum 10-11, Extra og Orkunnar, auk annarra eigna.