Samkaup, Heimkaup og Orkan hefja samrunaviðræður
Undanfarna mánuði hafa Samkaup hf. og Skel fjárfestingarfélag hf. átt í könnunarviðræðum um fýsileika samruna Samkaupa og tiltekinna dótturfélaga SKEL. Aðilar hafa framkvæmt forskoðun á samrunafélögunum með aðstoð sérfræðiráðgjafar og í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Skrifað hefur verið undir samkomulag um helstu forsendur fyrir því að hefja formlegt samrunaferli, þar sem Samkaup verður yfirtökufélagið. Nú hefjast því samningaviðræður um samrunann með það að markmiði að komast að samkomulagi um efni endanlegs kaupsamnings með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafundar. Samruninn er í samræmi við framtíðarstefnu Samkaupa og felur í sér margvísleg tækifæri og breikkar tekjugrunn félagsins.
„Samkaup er yfirtökufélag í þessum samruna og ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu eftir vinnu síðustu missera. Ég er sannfærður um að sameinað félag eigi eftir að gera góða hluti til hagsbóta fyrir neytendur. Með sameiningu verður til fjárhagslega öflugt verslunarfélag á neytendamarkaði með sterka markaðshlutdeild í dagvöru, lyfjum og orku. Sameinað félag er með djúpar rætur í þjónustu við viðskiptavini um allt land og verður enn sterkari keppinautur á markaði með mikil tækifæri til vaxtar. Aukin hagkvæmni hlýst af stærri rekstrareiningu en einnig eru mikil tækifæri víða um land með auknu þjónustuframboði,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, í tilkynningunni.
Upplýsingar um Samkaup, Orkuna og Heimkaup:
- Samkaup reka rúmlega 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Hjá félaginu starfa um 1.400 starfsmenn í rúmlega 660 stöðugildum.
- Orkan starfrækir 72 orkustöðvar, tíu þvottastöðvar undir merkjum Löðurs, sex hraðhleðslustöðvar, tvær vetnisstöðvar og eina metanstöð. Þá á félagið 32 fasteignir og lóðir víðs vegar um landið, auk annarra eigna.
- Heimkaup reka sjö apótek undir merkjum Lyfjavals, netverslunina Heimkaup og níu þægindaverslanir undir merkjum 10-11, Extra og Orkunnar, auk annarra eigna.