Samið við Suðurnesjabæ um aukna þjónustu við fylgdarlaus börn
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Suðurnesjabæ til að efla og styrkja barnaverndarþjónustu við fylgdarlaus börn. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning þess efnis við Suðurnesjabæ í dag.
Fylgdarlaus börn eru börn sem koma til landsins án foreldra eða forsjáraðila. Frá árinu 2022 hefur fylgdarlausum börnum sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd fjölgað umtalsvert en 140 börn hafa komið hingað fylgdarlaus frá 1. janúar 2022. Til samanburðar þá komu 115 fylgdarlaus börn á árunum 2012–2021. Sú mikla fjölgun sem hefur átt sér stað meðal fylgdarlausra barna hérlendis er í samræmi við almenna fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd hérlendis.
Flest mál fylgdarlausra barna koma upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er staðsett í Suðurnesjabæ og hefur það því fallið í skaut barnaverndar Suðurnesjabæjar að þjónusta stóran hluta þeirra fylgdarlausra barna sem hafa komið hingað til lands.
„Fylgdarlaus börn á flótta eru sérlega viðkvæmur hópur og verkefnið flókið. Það er aðdáunarvert hvernig Suðurnesjabær hefur brugðist við til að leysa þetta verkefni af fagmennsku og alúð og eru nú tvö búsetuúrræði starfrækt í sveitarfélaginu. Ljóst er að bregðast þarf við aukningu á komu fylgdarlausra barna og styðja við þjónustuna með farsæld barnanna að leiðarljósi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Samkvæmt samningnum annast Suðurnesjabær mál fylgdarlausra barna í sveitarfélaginu ásamt rekstri búsetuúrræða fyrir fylgdarlaus börn. Búsetuúrræði Suðurnesjabæjar fyrir fylgdarlaus börn skulu jafnframt standa öðrum sveitarfélögum til boða, sé rými til staðar, með þeim hætti að önnur sveitarfélög geti mögulega flutt mál fylgdarlausra barna til Suðurnesjabæjar.
Samningurinn fjármagnar þrjú og hálft stöðugildi árið 2024. Fylgst verður framvindu verkefnisins og árangur metinn.