Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Samið við Gagnavörsluna
Fimmtudagur 13. mars 2008 kl. 14:27

Samið við Gagnavörsluna

Reykjanesbær skrifaði þann 29. febrúar sl. undir samstarfs- og þróunarsamning við Gagnavörsluna ehf. um þróun þekkingar á sviði varðveislu, skjalaráðgjafar og rafrænnar vistunar.

Í samningi þessum felst að Gagnavarslan ehf mun í samvinnu við Byggðasafn Reykjanesbæjar þróa nýjar leiðir til að varðveita skjöl og menningarminjar. Er þetta liður í átaki bæjarins að efla faglega vinnu við minjavörslu og laða til bæjarins fyrirtæki á sviði þekkingariðnaðar. En Gagnavarslan ehf hyggst byggja upp öflugt fyrirtæki á þessu sviði í Reykjanesbæ. Fyrirtækið mun bjóða heildarlausn í varðveislumálum fyrirtækja, stofnana, ríkis og sveitarfélaga og þá sérstaklega með tilliti til skjala. Hefur Gagnavarslan fengið húsnæði á Vallarheiði sem þegar er hægt að taka í notkun en í framtíðarhugmyndum fyrirtækisins er gert ráð fyrir nýbyggingu sem verður sérhönnuð fyrir varðveislu skjala og muna.

Söfn bæjarins hafa geymt safnkost sinn sem ekki er á sýningum á ýmsum stöðum í bænum. Það hefur háð starfseminni hve dreifð hún er. Töluverð vinna felst í að halda utan um safnkostinn, skráning og margvísleg umsýslu. Með samningnum verður allur safnkostur bæjarins varðveittur á sama stað og jafnframt öll vinna honum tengd. Verður af þessu töluverð hagræðing og meira öryggi fyrir safnkostinn.

Samningurinn felur í sér að safnkostur bæjarins, það er frá Byggðasafni, Listasafni og Skjalasafni Reykjanesbæjar flytjast á Vallarheiði til Gagnavörslunnar. Allri safngripir verða eftir sem áður undir foræði viðkomandi safna sem og öll þjónusta þeim lútandi og aðalsýningarými safnanna verður í Duushúsum líkt og verið hefur.
Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra menningarsviðs hefur samningurinn í för með sér góða lausn á varðveislumálum safna bæjarins. Þá verður spennandi að taka þátt í uppbyggingu og þróun á því þekkingarfyrirtæki sem Gagnavarslan er.

Brynja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Gagnavörslunnar segir að það sé mikil vakning í þjóðfélaginu um mikilvægi varðveislu skjala og muna. Einnig sé það frábært tækifæri og tilhlökkun að fá að vinna með metnaðarfullum starfsmönnum Reykjanesbæjar að þróun skjalastjórnunar og þróun varðveislu skjala og menningarminja.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024