Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Samið um nýtt gervigras í Reykjaneshöll
Fimmtudagur 29. nóvember 2007 kl. 15:47

Samið um nýtt gervigras í Reykjaneshöll

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Asvald Simonsen, fulltrúi fyrirtækisins Polytan GmbH, skrifuðu í gær undir samning um nýtt gervigras í Reykjaneshöll.

Grasið er af gerðinni Polytan og verður það lagt ofan á núverandi fjaðurlag Reykjaneshallarinnar en sambærilegt gras er nú í notkun á Akranesi. Eldra grasið er frá árinu 2000 og hefur verið til mikilla vandræða síðustu misseri sökum svifryks sem þyrlast upp úr sandinum sem borinn er í grasið. M.a. hefur salnum nokkrum sinnum verið lokað að tilskipun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vegna svifryksmengunar þrátt fyrir að sérstök vél hafi verið keypt til að hreinsa sandinn og höllin hafi verið hreinsuð frá mæni og niður úr.

 

Nýja grasið hefur gefið góða raun þar sem það hefur verið notað, en í stað sands er gúmmíkurl borið í grasið þannig að ekki ætti rykið að verða til vandræða.

 

Fjarlægja þarf eldri dúkinn og hefur verið samið við knattspyrnudeildir Keflavíkur og Njarðvíkur um að taka að sér verkið. Gert er ráð fyrir að sú vinna standi yfir dagana 1. - 3. desember en eftir það verður nýtt gras lagt á höllina og áætlað er að grasið verið tilbúið til notkunar 18. desember n.k.

Tveir aðilar hafa sýnt gamla grasinu áhuga en það eru Golfklúbbur Suðurnesja og Íþróttaakademían í Reykjanesbæ en báðir hyggjast nýta það við drifvöll (driving range).

Kostnaður vegna þessara breytinga er samtals 25 milljónir króna en innifalið í þeim kostaði er hreinsivél fyrir grasið og ný mörk. Gerð er krafa um að efnið uppfyllli FIFA 2 star staðalinn og íslenska staðla samkvæmt prófunum.

Óskað var eftir tilboðum í verkið og bárust alls fjögur tilboð. VSÓ aðstoðaði við gerð samningsins og er jafnframt eftirlitsaðili með verkinu.

 

Viðtal við Árna Sigfússon má finna á VefTV Víkurfrétta innan skamms...

 

VF-mynd/Þorgils - Árni og Simonsen handsala samninginn. Þeim til halds og trausts eru forsvarsmenn knattspyrnudeilda Keflavíkur og UMFN

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024