Samgöngur til Reykjanesbæjar lamaðar
Mikill urgur er í bifreiðastjórum í Reykjanesbæ þessa dagana vegna verkfalls Sleipnis. Ásakanir hafa gengið manna á milli vegna gjaldskrár leigubíla annars vegar og hins vegar vegna þess að verkfallsverðir Sleipnis stöðvuðu akstur SBK frá flugstöðinni til Keflavíkur sl. mánudag. Verið er að vinna að sameiginlegri gjaldskrá fyrir alla leigubíla, og binda menn vonir við að það leysi málið. Hvað varðar deilu SBK og Sleipnis þá er málið í skoðun og forsvarsmenn SBK segja að með þessum aðgerðum sé verið að koma í veg fyrir almenningssamgöngur frá flugstöðinni til Keflavíkur. Þess má geta að bifreiðastjórar SBK eru í starfsmannafélagi Reykjanesbæjar og eru því ekki í verkfalli og hafa undanfarin ár keyrt leiðina Leifsstöð - Keflavík, en ekki Leifsstöð-Reykjavík eins og Sleipnismenn halda fram. Farþegum er síðan frjálst að taka rútu frá Keflavík til Reykjavíkur frá bifreiðastöð SBK ef þeir óska þess, að sögn Sigurðar Steindórssonar, þjónustustjóra SBK.Erum að skoða máliðSigurður Steindórsson, þjónustustjóri SBK, sagðist ekki skilja á hvaða forsendum Sleipnismenn teldu sig geta stöðvað akstur SBK frá flugstöð til Keflavíkur, þar sem SBK hefði keyrt þessa leið undanfarin ár, 11-15 sinnum á dag. „Ef fólk vill þá má það að sjálfsögðu taka rútu frá Keflavík til Reykjavíkur en Sleipnismenn halda því fram að SBK keyri beint frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur, sem er ekki rétt. Við erum að reyna að komast til botns í þessu máli og það má einnig benda á að bifreiðastjórar SBK eru allir félagar í starfsmannafélagi Reykjanesbæjar, þannig að við erum ekki í verkfalli“, segir Sigurður.Að sögn Sigurðar er orðið erfitt fyrir ferðamenn að heimsækja Reykanesbæ vegna alls þessa. „Hvernig eiga ferðamenn að komast niður eftir, þar sem leigubílstjórar virðast ekki vera of hrifnir af því að taka ferðir niður eftir og áætlunarferðir SBK frá Leifsstöð til Keflavíkur hafa verið stöðvaðar?“Sameiginleg gjaldskráSamkvæmt venjulegri verðskrá kostar 7900 kr. að taka stóran leigubíl frá flugstöðinni til Reykjavíkur, og 6900 að taka lítinn. Sögur hafa farið að því að fólk hafi verið látið borga mun meira fyrir ferðina, allt að 16 þús. krónur og jafnvel meira, en þær tölur er ekki hægt að staðfesta. Forsvarsmenn leigubílastöðva ætluðu að hittast sl. þriðjudagskvöld og koma sér saman um sameiginlega verðskrá, sem yrði komið á framfæri á næstu dögum og allir ættu að fara eftir.Berglind Heiða Sigurbergsdóttir, starfsstúlka Upplýsingamiðstöðvar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sagði að til hennar hefðu komið ferðamenn sem hefðu verið reiðir vegna þess að ferðaskrifstofurnar hefðu ekki látið þau vita, þegar þau keyptu miðann til Íslands, að hér væri verkfall. Nokkur dæmi eru um að fólk hafi ætlað að dvelja á Íslandi um tíma, en hætt við vegna þessa og látið breyta miðanum sínum til að komast sem fyrst úr landi. „Sumir gera sér ekki grein fyrir genginu og eru kannski að borga meira því það eru nokkrir svartir sauðir í stéttinni. Ég á þó von á að þetta mál leysist eftir samráðsfundinn“, segir Berglind Heiða.Erum háðir verðlagseftirlitiAðalbergur Þórarinsson, leigubílsstjóri til margra ára, aftekur að fólk hafi verið látið borga 20 þús. krónur fyrir ferð til Reykjavíkur. Hann segir að erlendir ferðamenn séu sjaldnast með svo mikla peninga á sér, þannig að þetta geti ekki staðist. „Kannski eru einhver brögð af því að menn hafi tekið of mikið fyrir ferðina. Þegar ég hef farið með fólk í bæinn tek ég um 1500 kr. á mann og þá er miðað við 6-8 farþega í bílnum. Ég þarf oft að fara með farþegana á marga staði, því gistiheimilin eru dreifð um allan bæ“, segir Aðalbergur og bendir á að miðað við vegalengdina sem ekin er þá myndu ferðirnar eflaust verða mun dýrari ef venjulegur gjaldmælir væri notaður. „Ég skil nú ekki hvað framkvæmdastjóri SBK er að meina, þegar hann segir í viðtali við DV í dag að taxti leigubílstjóra sé orðinn allt of hár. Ég er alls ekki sammála því og það má benda á að við erum háðir verðlagseftirliti með taxta“, segir Aðalbergur.