Samgöngumál sveitarstjórnarmönnum hugleikin
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 14.-15. október 2016, skorar á Innanríkisráðherra að beita sér fyrir úrbótum á lagaumhverfi almenningssamgangna. Nauðsynlegt er að tryggja landshlutasamtökunum einkaleyfi almenningssamgangna eins og kemur fram í samningum milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Vegagerðarinnar. Leggja verður áherslu á að einkaréttur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilleknum leiðum og svæum verði virtur og að þeim rétti sé veitt ríkari vernd í lögum. Gera verður skýrari greinarmun á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Þá skorar fundurinn á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og á landinu öllu og tryggja að þær séu raunhæfur kostur fyrir almenning.
Reykjanesbrautar tvöföldun verði lokið
Fundurinn bendir á að mikilvægt er að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að bregðast við auknum umferðarþunga og tryggja öryggi notenda. Nauðsynlegt er að auka umferðaröryggi við Aðalgötu og Þjóðbraut inn á Reykjanesbraut, sem og tengingu við Hafnarveg.
Aðalfundurinn leggur áherslu á að unnið verði að því að breikka Grindavíkurveg. Vegurinn er einn af fjölförnustu ferðamannavegum landsins en tæp milljón gesta sækja Bláa lónið heim ár hvert. Þá er vegurinn illa farinn vegna mikilla þungaflutninga og mjög sprunginn á köflum. Vert er að benda á að vegurinn liggur í gegnum vatnsverndarsvæði Suðurnesja og því afar mikilvægt að hann sé þannig úr garði gerður að hægt sé að bregðast við mengunarslysum.
Mikilvægt er að ljúka við gerð Suðurstrandavegs og tryggja fjármagn til vetrarþjónustu. Lagt er til við Vegagerðina að breytt verði um skilgreiningu á vetrarþjónustu fyrir Suðurstandaveg með þeim hætti að þjónusta á veginum verði færð upp um þjónustuflokk. Miðað við þjónustuskilgreiningar Vegagerðarinnar ætti Suðurstandavegur að vera í þjónustuflokki 3 og fá vetrarþjónustu 5 daga vikunnar. Fundurinn bendir á að þetta er ekki einungis hagsmunamál Suðurnesjanna heldur líka allra þeirra sem fara um Suðurlandið. Mikilvægt er að geta beint umferð um veginn vegna tíðra lokanna Suðurlandsvegar á Hellisheiði og í Þrengsla. Nauðsynlegt er að gera aðra leið færa á milli Suðurlands og Suðurnesja.
Bæta þarf símasamband á Suðurstrandarvegi
Nýlegar mælingar sem Póst- og fjarskiptastofnun lét gera á GSM símasambandi á þjóðvegum landsins sýndi að mjög misjafnt er eftir fjarskiptafélögum hvernig símasamband er á Suðurstandarvegi, allt frá því að vera lélegt upp í að vera þokkalegt.
Því skorar fundurinn á að fjarskiptafélögin að samnýta fjarskiptasenda við Suðurstrandaveg með það í huga að bæta þjónusta og tryggja almannaöryggi vegfarenda um leið og komið verði í veg fyrir offjárfestingu á fjarskiptabúnaði
Laga þarf vegi til Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs, sem og á milli þeirra sveitarfélaga. Breikka þarf vegina og þarfnast þeir talsverðar lagfæringa. Nokkur straumur er um vegina af stórum bifreiðum m.a. vegna fiskflutninga sem og aukins ferðamannastraums og uppfylla vegirnir ekki öryggiskröfur.
Áfram með göngu- og hjólareiðastíga
Aðalfundurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram að byggja upp göngu- og hjólreiðastíga á milli sveitarfélaga Suðurnesjum og við flugstöðvarsvæðið. Þetta er sérstaklega mikilvægt til að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem sífellt fjölgar á svæðinu, segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi SSS í Garði.