Samfylkingin í Suðurkjördæmi fagnar árangri ríkisstjórnar Jóhönnu
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fagnar ábyrgri jafnaðarstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og óumdeildum árangri hennar á erfiðum tímum. Metnaðarfull efnahagsmarkmið hafa náðst á sama tíma og áhrif kreppunnar á lægri- og millitekjuhópa hafa verið milduð og jöfnuður í samfélaginu hefur aukist, segir í ályktun kjördæmaþings Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Selfossi 14. apríl 2012
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fagnar framkomnum frumvörpum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, mikilvægum áfanga í langþráðri kerfisbreytingu í sjávarútvegi. Kerfisbreytingu sem tryggja mun nytjastofnana við Ísland sem ævarandi sameign þjóðarinnar, tryggja að handhafar sérleyfa til nýtingar skili þjóðinni sanngjörnum arði og tækifæri til nýliðunar í greininni með virkum og vaxandi útboðsmarkaði. Mikilvægt er kerfisbreytingin raski ekki stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar og tryggi rekstrarskilyrði hennar til langframa. Kjördæmisráðið leggur áherslu á að aukinn arður af auðlindinni verði m.a. nýttur til við fjárfestingar í innviðum samfélagsins, menntun, nýsköpun og rannsóknum, og við sóknaráætlanir í atvinnulífi um land allt.
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi treystir því að þjóðin fái að koma áfram að mótun nýrrar stjórnarskrár, að henni verði gert kleift að segja álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Kjördæmisráðið hvetur þingflokk Samfylkingarinnar til þess að vinna áfram einbeitt að því að endurskoðunarferli stjórnarskrárinnar – ferli sem vakið hefur athygli á alþjóðavettvangi sökum þess hve mikinn aðgang almenningur fær að því að semja nýja stjórnarskrá – ljúki á komandi vetri eins og áætlað var og ný stjórnarskrá liggi fyrir næsta vor.
Jákvæður árangur hefur náðst í skuldamálum og skuldabyrði stórs hluta íslenskra heimila hefur verið létt. Skuldir heimillanna - sem hlutfall af landsframsleiðslu – hafa lækkað, hrein eign heimila í íbúahúsnæði hefur aukist og yfirveðsettum heimilum fer fækkandi. Kjördæmisráðið áréttar mikilvægi þess að skuldamál heimilinna séu stöðugt endurmetin og brugðist verði við með nauðsynlegum aðgerðum til þess að koma til móts við þau heimili sem eiga í mestum greiðsluvanda, t.d. með húsnæðisbótum og auknum barnabótum. Þá er það sanngirnismál að koma á frekari úrræðum til þess að koma til móts við þá sem tóku verðtryggð fasteignalán í húsnæðbólunni árin 2004-2008.
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi skorar á ríkisstjórnina að hraða aðildarviðræðunum við ESB svo að niðurstaðan í mikilvægustu samningsköflunum – sjávarútvegi, peningamálum og landbúnaði – liggi fyrir sem fyrst. Mikilvægt er að ljúka samingunum, leggja hann fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar þannig að framtíðarkostir í gjaldmiðilsmálum liggi fyrir hið fyrsta. Afnám gjaldeyrishafta, samhliða upptöku evru sem stöðugs framtíðargjaldmiðils, eru eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar og skýrasta leiðin til þess að tryggja efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar til langrar framtíðar.
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur þingflokk Samfylkingarinnar til þess að halda ótrauðan áfram. Stefnufestan og samstaða flokksins við erfiðar aðstæður er nú að skila þeim árangri sem að var stefnt við endurreisnina sem birtist m.a. í minnkandi atvinnuleysi og hagvext sem á varla sinn líkan í Evrópu. Klárum málin.
Frétt frá kjördæmisráði.