Samfylkingin boðar til opinna funda á Suðurnesjum
Heilbrigðismálin í forgrunni og öllum velkomið að taka þátt
Samfylkingin boðar til þriggja opinna funda um heilbrigðismál á Suðurnesjum. Fundirnir eru opnir öllum og eru þeir fyrsta skrefið í nýju og umfangsmiklu málefnastarfi sem Kristrún Frostadóttir formaður flokksins kynnti á dögunum. Fundirnir verða á eftirfarandi stöðum: Park Inn í Reykjanesbæ — kl. 17:00, mánudag 27. mars. Kiwanishúsið í Garði — kl. 20:00, mánudag 27. mars og Bryggjan í Grindavík — kl. 12:00. þriðjudag 28. mars.
Kristrún mætir sjálf til leiks á fundunum á Suðurnesjum, þrátt fyrir að vera í fæðingarorlofi, til að taka samtalið við heimamenn og fylgja nýju málefnastarfi Samfylkingarinnar af stað, segir í tilkynningu.
Heilbrigðismálin efst á blaði
„Heilbrigðismálin og öldrunarþjónustan verða í forgrunni hjá okkur núna og alveg fram á haust. Við byrjum vinnuna með hátt í fjörutíu opnum fundum með fólkinu í landinu og okkur fannst við hæfi að hefja fundaferðina á Suðurnesjum — þar sem heilbrigðismálin hafa svo sannarlega brunnið á íbúum,“ segir Kristrún í tilkynningunni.
„Ég hélt sjálf fjölda opinna funda um land allt á síðasta ári sem höfðu mikil áhrif á mig. Svona viljum við gera þetta og við tökum vinnuna alvarlega. Nú undirbúum við breytingar á sviði heilbrigðismála enda ekki vanþörf á.“
Á hverjum fundi verða fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingarinnar um heilbrigðis- og öldrunarþjónustu auk forystufólks flokksins, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum. Ein af þremur í stýrihópnum sem leiðir vinnuna er Guðný Birna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Kristrún heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og Hrafnistu á Nesvöllum í Reykjanesbæ í síðustu viku ásamt hópnum.
Öllum velkomið að taka þátt
Kristrún leggur áherslu á að öllum sé velkomið að mæta á fundina og taka þátt. Ekki verði spurt um flokksskírteini fólks. „Nú erum við að opna flokkinn og leggjum áherslu á að taka samtal við fólkið í landinu. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu,“ segir Kristrún og bætir að lokum við:
„Ert þú með sérþekkingu í heilbrigðismálum eða reynslu af gólfinu? Eða ertu almennur borgari sem vill sjá breytingar til hins betra í heilbrigðismálum á Íslandi? Þá viljum við fá þig með í samtalið.“