Samfylking og VG bæta við sig manni í Suðurkjördæmi
31,8 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinginguna í Suðurkjördæmi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Fréttastofu Stöðvar 2 sem birt er í morgun. Samfylkingin fengi því þrjá kjördæmakjörna þingmenn samkvæmt þessu.
Fylgi Vinstri grænna eykst verulega frá síðustu kosningum og segjast nú 16,6 prósent styðja flokkinn. Það myndi þýða að flokkurinn næði tveimur kjördæmakjörnum þingmönnum, en flokkurinn fékk einn mann kjörinn í kjördæminu í síðustu kosningum
25,8 prósent styðja Sjálfstæðisflokkinn og myndi flokkurinn því tapa þingmanni og fá þrjá kjördæmakjörna þingmenn.
Nánast sama hlutfall, eða 16,1 prósent, styður Framsóknarflokkinn, sem fengi einn kjördæmakjörinn þingmann í stað tveggja. Aðrir flokkar kæmu ekki manni að, en 5,2 prósent styðja Borgarahreyfinguna, 2,9 prósent styðja Frjálslynda flokkinn og 1,6 prósent styðja Lýðræðishreyfinguna.
---
VFmynd/elg - Kjósendur hafa þrjá daga til að gera endanlega upp hug sinn en kosið verður til Alþingis á laugardaginn.