Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sameining slökkviliða vísir að frekari sameiningu sveitarfélaga?
Miðvikudagur 22. febrúar 2012 kl. 15:43

Sameining slökkviliða vísir að frekari sameiningu sveitarfélaga?

Slökkvilið Sandgerðis vill sameinast Brunavörnum Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sandgerðingar hafa leitað til eigenda Brunavarna Suðurnesja um sameiningu slökkviliða. Á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær var því slegið fram hvort þetta gæti verið fyrsta skref í átt að sameiningu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar og minnihlutans í bæjarstjórn sagði að Sandgerðingar væru eingöngu að leita eftir sameiningu slökkviliða af fjárhagslegm ástæðum. Þeir hefðu ekki efni á rekstri slökkviliðs.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins spurðu í ræðustóli hvort þetta gæti verið fyrsta skrefið í átt að sameiningu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Nú væri rétti tíminn til að skoða þau mál í framhaldi af ósk Sandgerðinga. Aðilar að Brunavörnum Suðurnesja eru Reykjanesbær, Garður og Vogar og ef Sandgerði dytti inn í BS væri hugsanlega tími til að skoða stöðuna í viðhorfi aðila til frekari sameiningar sveitarfélaga. Friðjón sagði umræðuna á villigötum og ljóst væri að Sandgerðingar væru í vandræðum fjárhagslega almennt og gæti gert þeim erfitt fyrir að uppfylla nýgerðan samning um brunavarnir við Isavia/Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

„Samstarf slökkviliða þarf að vera hagkvæmt fyrir báða aðila og mér ber sem bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar að hugsa um hagsmuni míns bæjarfélags. Við eigum ekki að taka að okkur slökkvilið Sandgerðinga ef það kostar okkur meira,“ sagði Friðjón.

Sandgerðingar hafa allt frá sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994 verið á móti sameiningu sveitarfélaganna á Suðurnesjum og sama staða hefur verið hjá forráðamönnum Garðs. Bæði þessi sveitarfélög hafa þó verið virkir aðilar í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSS, en að auki hafa Grindvíkingar og Vogamenn tekið þátt í því. Á aðalfundi sambandsins (SSS) sl. haust var umræða um sameiningu rædd og þá var engin sameiningartónn í gangi.

Sé tekið mið af staðsetningu Brunavarna Suðurnesja benti Árni Sigfússon á að hún sé miðsvæðis miðað við öll hverfi Reykjanesbæjar og síðan Garðs og Sandgerðis.