Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sameining Akademíunnar og Keilis samþykkt í dag
Föstudagur 22. júní 2007 kl. 17:19

Sameining Akademíunnar og Keilis samþykkt í dag

Íþróttaakademían í Reykjanesbæ verður sameinuð Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og verður grunnstoð í nýjum íþrótta-, heilsu-, og heilbrigðisklasa Keilis.

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis, sagði í samtali við Víkurfréttir að tillaga þess efnis hafi verið borin upp á stjórnarfundi í Keili í dag og honum falið að ganga frá málinu.

„Ég held að í þessu felist mikil tækifæri, bæði fyrir vöxt Íþróttaakademíunnar og ekki síður fyrir Keili, því þarna hefur verið unnið mjög gott starf og búið að leggja fram mikla vinnu sem við lítum vel til. Þarna er komin þriggja ára reynsla af háskólanámi og gengur mjög vel. Aðsókn er góð og öll mál í mjög fínu standi og mjög gott starfsfólk þannig að það er mikill fengur fyrir Keili að fá þessa öflugu einingu inn í batteríið.“

Íþróttaakademían hefur frá upphafi verið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, en Keilir vinnur með Háskóla Íslands að uppbyggingu háskólanáms. Runólfur segir hins vegar að það vefjist ekki fyrir Keilismönnum og gerir ráð fyrir að starfa með HR að málum Íþróttaakademíunnar.

„Það vera engar breytingar á starfsemi Akademíunnar sem nemendur munu finna fyrir, nema að hún mun eflast. Við verðum með mjög öfluga stoðþjónustu, bókasafn, námsráðgjöf og annað slíkt sem nemendur Akademíunnar eins og aðrir nemendur Keilis munu hafa aðgang að. Þannig að þjónustan við nemendur mun klárlega aukast.“

Runólfur segir að ekki sé enn ljóst hvort nemendum við Akademíuna muni fjölga. „Það eru ýmsar hugmyndir í gangi með starfsemina og mjög dýnamískt fólk sem hefur mikinn metnað sem vinnur í þeim málum á fullu.“

Undirbúningur starfsins á Keili gengur annars mjög vel og hafa þegar borist á annað hundrað umsóknir um nám í frumgreinadeild og eftirspurn eftir húsnæði á vellinum er langt umfram væntingar.

Runólfur sagði að um 300 ibúðir yrðu komnar í gagnið strax í haust og yrðu þær allar samkvæmt stöðlum varðandi rafmagn og aðrar lagnir.

VF-mynd/Þorgils
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024