Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sameining á Flugvelli: Mælt fyrir frumvarpi
Föstudagur 14. mars 2008 kl. 18:07

Sameining á Flugvelli: Mælt fyrir frumvarpi

Kristján L. Möller, samgönguráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar. Í því felst að rekstur Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eríkssonar verður sameinaður, en yfirlýstur tilgangur er að setja heildstæða löggjöf um rekstur Keflavíkurflugvallar og þá þjónustu sem þar er veitt bæði flugfélögum og farþegum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðal nýbreytni sem kemur fram í frumvarpinu er skipulagsnefnd flugvallarsvæðisins sem verður sett á fót en í henni munu sitja fulltrúar sveitarfélaga og samgönguráðuneytis, en gert er ráð fyrir áframhaldandi yfirstjórn utanríkisráðherra í skipulags- og mannvirkjamálum á öryggissvæðinu.


Í flutningsræðu sinni sagði ráðherra m.a.: „ Auk þessara atriða sem lagasetningin sjálf skal ná til leggur starfshópurinn til að leitað verði leiða til að skapa til frambúðar samstarfsvettvang ríkis og sveitarfélaga um þróun og atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Hugað verði að þessu atriði í sambandi við umbreytingu á Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. með beinni eignaraðild sveitarfélaga og aðkomu hins nýja flugvallarfélags.“


Ráðherra fundaði í vikunni með starfsfólki á Keflavíkurflugvelli og kynnti fyrir þeim fyrirhugðar breytingar. Í ræðu hans þar sagði m.a. að hann teldi breytingarnar til þess fallnar að skapa forsendur til að blása til sóknar í uppbyggingu á svæðinu.


Í frumvarpinu er tekið fram að öllu núverandi starfsfólki verði boðin vinna hjá nýja fyrirtækinu, nema starfsmönnum við flugleiðsöguþjónustu sem boðin skulu störf hjá Flugstoðum ohf.


„Ég er sannfærður um að þegar við höfum gengið í gegnum þetta breytingaferli og þegar nýtt skipulag hefur tekið gildi munum við ná þeim markmiðum að gera stjórnsýsluna skilvirkari, þjónustuna hagkvæmari og vöxtinn meiri,“ sagði ráðherrann á fundinum.


Frumvarpið var afgreitt úr fyrstu umræðu og vísað til samgöngunefndar til afgreiðslu þar, en í því er gert ráð fyrir að nýtt fyrirtæki muni hefja starfsemi þann 1. júní nk.