Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sameinað sveitarfélag með þrjá bæjarstjóra á launum
Frá fundi bæjarstjórnar í Garði og Sandgerði í gær þar sem samþykkt var að auglýsa eftir bæjarstjóra. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 21. júní 2018 kl. 15:04

Sameinað sveitarfélag með þrjá bæjarstjóra á launum

Nýtt sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis verður með þrjá bæjarstjóra á launum í sumar. Samþykkt hefur verið að ráða Róbert Ragnarsson sem bráðabirgðabæjarstjóra, þar til gengið hefur verið frá ráðningu bæjarstjóra í hið sameinaða sveitarfélag.
 
Talsverðar umræður urðu á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í Garði og Sandgerði í gær um málefni bæjarstjóra og skiptar skoðanir á þeirri ákvörðun að auglýsa starf bæjarstjóra. Bent var á það á fundinum að sveitarfélagið yrði því með þrjá bæjarstjóra á launum í sumar. Þau Sigrún Árnadóttir, fv. bæjarstjóri í Sandgerði og Magnús Stefánsson, fv. bæjarstjóri í Garði eru bæði á biðlaunum og svo bætist Róbert við í sumar.
 
Það er að tillögu D- og J-lista að samið verði við Róbert Ragnarsson um að verða starfandi bæjarstjóri þar til nýr bæjarstjóri tekur til starfa. 
 
„Róbert hefur unnið með undirbúningsstjórninni að sameiningunni og þekki því vel til allra mála og getur haldið ferlinu gangandi. Hann þekkir vel til starfa bæjarstjóra og hefur gefið það út að hann muni ekki sækja um bæjarstjórastöðuna og því er þessi tímabundna ráðning talin góður kostur,“ segir í töllögu meirihlutaflokkanna. Forseta bæjarstjórnar er falið að ganga frá samkomulagi við Róbert.
 
Komið hefur fram að Sigrún Árnadóttir ætlar sér ekki að sækja um starf bæjarstjóra í sameinuðu sveitarfélagi en Magnús Stefánsson, sem var bæjarstjóri í Garði, mun hins vegar verða á meðal umsækjenda um starfið.

 
Sigrún Árnadóttir og Magnús Stefánsson eru bæði á biðlaunum hjá nýju sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis.



Róbert Ragnarsson verður „bráðabirgðabæjarstjóri“ í nýju sameinuðu sveitarfélagi en hann mun ekki sækja um starf bæjarstjóra.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024