Samanburður varla til neins
„Ástæða er til að gleðjast yfir góðri afkomu sveitarfélagsins um leið og 100 ára afmæli er fagnað,“ segir í greinargerð Oddnýjar Harðardóttur, bæjarstjóra í Garði, sem lögð var fram til seinni umræðu á ársreikningi sveitarfélagsins nú fyrir helgi. „Fullyrða má að staða sveitarfélagsins hafi aldrei verið betri en nú. Niðurstöður eru svo mikið betri en áður að samanburður er varla til neins,“ segir í greinargerðinni.
Helstu niðurstöður ársreikninganna eru þessar:
Tekjur Sveitarsjóðs eru kr. 686.346 milljónir króna og gjöld rúmar 597 milljónir Rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda er jákvæð um rúmar 89 milljónir. Fjármagnsliðir eru upp á rúmlega 1.854 milljónir. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um tæpar 1.944 milljónir.
Skuldir sveitarfélagsins, þ.e. lífeyrisskuldbindingar, skuldir við lánastofnanir og skammtímaskuldir eru alls tæplega 1.172 milljónir. Eigið fé er hins vegar tæpar 2.628 milljónir króna.
„Fullyrða má að staða sveitarfélagsins hafi aldrei verið betri en nú. Niðurstöður eru svo mikið betri en áður að samanburður er varla til neins. Þó er ljóst að ef sala á hlut Garðs í Hitaveitunni er ekki tekin með í reikninginn hefur rekstur sveitarsjóðs batnað verulega eins og sjá má á rekstrarniðurstöðu án fjármunatekna og fjármagnsgjalda. Söluhagnaður af sölu hluts Garðs í Hitaveitu Suðurnesja verður ávaxtaður til framtíðar og mun nýtast íbúum til heilla um ókomna framtíð ef vel er á málum haldið. Auðvelt er að spila illa úr svo góðri stöðu og því hefur N-listinn boðað varkár og vönduð vinnubrögð og ábyrga fjármálastjórn þar sem hugað er að hag íbúa í nútíð og framtíð.“ segir í greinargerð bæjarstjóra.