Sama þyngd og einn Land Cruiser á dag
Á síðasta ári tóku 17 heimili á landinu þátt í mælingum um hversu mikið af pappír kom inn um bréfalúguna í formi dagblaða og auglýsingapósts. Að meðaltali barst 176 kg inn um lúgur hvers heimilis af dagblöðum og auglýsingum á árinu. Þetta er 76% aukning frá árinu 2003 en þá bárust 100 kg af slíkum pósti inn um lúgurnar í samskonar könnun.
Ef við áætlum að heimili á Suðurnesjum séu um 6500 talsins þá er heildarþyngd dagblaða og auglýsinga sem berst hingað á ári hverju 1144 tonn. Til að setja þá tölu í samhengi þá þyngdin á við 365 Land Cruiser bifreiðar, sem þýðir einn Land Cruiser á dag er borinn út í formi dagblaða og auglýsinga. Víkurfréttir eru um 16,7% af heildarmagninu hér á Suðurnesjum.
Hér á Suðurnesjum voru einunigs tæp 28% af þessu pappírsflóði send til endurvinnslu í grenndargámakerfi Kölku sem þýðir að 72% fóru með heimilissorpinu. Ljóst er að hægt er að gera mun betur í þeim efnum og hvetjum við fólk til að skila pappír til endurvinnslu.
Mynd: Sýnishorn af því sem barst inn um bréfalúguna í vikunni.