Sala á Neyðarkalli gekk vel í Grindavík

Að venju tók Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík virkan þátt í sölu á Neyðarkalli björgunarsveitanna. Á hádegi á laugardag fóru tæplega 20 manns frá björgunarsveitinni með tæki og búnað sveitarinnar á bílastæði fyrir framan félagsheimilið Festi í Grindavík. Þar voru tækin til sýnis og sett voru upp fluglínutæki, sem á skemmtilegan hátt tengast vel Neyðarkalli þessa árs.
Sala Neyðarkallsins hefur gengið vonum framar og eru menn mjög sáttir með þetta fyrirkomulag, segja forráðamenn sveitarinnar í Grindavík. Meðfylgjandi mynd var tekin við tilefnið.





 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				