Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sakar fulltrúa meirihlutans um gróft stjórnsýslubrot
Mánudagur 22. september 2008 kl. 10:36

Sakar fulltrúa meirihlutans um gróft stjórnsýslubrot

Sigmar Eðvarsson, fulltrúi D-lista í bæjarráði Grindavíkurbæjar, er ómyrkur í máli í bókun sem hann lagði fram á síðasta fundi ráðsins í umræðu um styrkveitingu til kvennaknattspyrnunnar í Grindavík. Sigmar segir formann bæjarráðs hafa snuprað bæjarbúa með villandi upplýsingum og vinnubrögðin varðandi styrkveitinguna séu gróft stjórnsýslubrot og með öllu ólíðandi.



Bæjaryfirvöld veittu fyrir nokkru fjárstyrk til meistaraflokks GRVað upphæð einni milljón króna vegna góðrar frammistöðu á Íslandsmótinu. Á bæjarstjórnarfundi þann 10. september spurði fulltrúi D-lista hvort vænta mætti að allir meistarflokkar yrði styrktir með sama hætti til að gæta jafnræðis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Formaður bæjarráðs upplýsti að ekki væri meiningin að styrkja aðra meistaraflokka í Grindavík því þetta væri ekki styrkur, heldur vinnuframlag útlendinga sem voru í liðinu og einhver redding þeim til handa.


Samkvæmt þessum upplýsingum hefur formaður bæjarráðs og bæjarstjóri snuprað bæjarbúa og bæjarráð með villandi upplýsingum bæði í fjölmiðlum og bæjarráði.


Samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra bæjarins þá voru ekki greiddir neinir skattar og gjöld af upphæðinni heldur var þetta fært sem styrkur.


Svona vinnubrögð eru með öllu ólíðandi og eru gróft stjórnsýslubrot,“ segir í bókun Sigmars á bæjarráðsfundi í síðustu viku.



Sigmar lagði í framhaldinu fram tillögu þar sem „formaður bæjarráðs biðji bæjarráð afsökunar á framferði sínu og óski eftir því við fjármálastjóra að gjörningurinn verði færður rétt til bókar svo komast megi hjá skattsvikum,“ eins og segir orðrétt í tillögunni sem var felld með atkvæðum meirihlutans.



Fulltrúar meirihlutans vísa fullyrðingum Sigmars til föðurhúsuna í bókun sem þeir lögðu fram við sama tækifæri í í henni segir:


„Bæjarráð samþykkti einróma á fundi sínum að styrkja meistaraflokk GRV, knattspyrnudeild kvenna um eina milljón. Þetta er styrkur sem deildin hefur sjálf eða stjórn hennar með að gera hvernig er ráðstafað. Einhverjar ávirðingar oddvita D-listans um að eitthvað hafi ekki verið upp á borðinu vegna styrksins er vísað til föðurhúsanna.


Spyrja má hvort um sé að ræða karlrembuhátt fyrrverandi bæjarformanns og skoðanir hans að konum sé ekki treystandi fyrir fjármálum hafi áhrif á málefnastöðu hans gagnvart styrkveitingu til meistaraflokks kvenna.“


Loftmynd/OK: Horft yfir Grindavík.