Sagði kannabis vera hor
Við hefðbundið eftirlit um helgina kom lögreglan á Suðurnesjum auga á kyrrstæða bifreið, sem ekki er í frásögur færandi. En þegar lögreglubifreiðin nálgaðist hana stukku tveir menn út úr henni og tóku til fótanna. Á hlaupunum missti annar þeirra lítinn plastpoka úr vasa sínum. Lögreglumenn hlupu hlaupagikkina uppi og óskuðu eftir að fá að leita á þeim, sem þeir urðu við. Í veski annars mannsins fannst efni, sem vafið var inn í salernispappír. Hann tjáði lögreglumönnunum fyrst að þetta væri hor, en játaði síðan að um væri að ræða kannabis, sem hann svo afsalaði sér.