Saga Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli er komin út
Saga Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli er komin út. Ritstjóri og höfundur texta er Svanhildur Eiríksdóttir bókmenntafræðingur og blaðamaður.
Saga Slökkviliðisins á Keflavíkurflugvelli er um margt sérstök. Lengst af var starfsemi þess innan bandarískrar lögsögu og þegar Sveinn Eiríksson var ráðinn slökkviliðsstjóri árið 1963, var hann ekki aðeins fyrsti íslenski slökkviliðsstjórinn á Keflavíkurflugvelli heldur einnig fyrsti yfirmaður slökkviliðs innan flota Bandaríkjanna sem ekki var bandarískur ríkisborgari.
Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli var brautryðjandi í eldvarnaeftirliti og nýjustu tækni í brunavörnum og náði góðum árangri. Það sanna fjölmörg verðlaun sem Slökkviliðinu hefur hlotnast á þeim 60 árum sem það hefur verið starfandi. Þá hefur ekki síður þótt lærdómsríkt fyrir önnur slökkvilið víðsvegar af landinu að sækja Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli heim, læra af reynslu þess og njóta leiðsagnar.
Svanhildur Eiríksdóttir hefur langa reynslu af blaðamennsku og textagerð. Hún starfaði sem blaðamaður hjá Suðurnesjafréttum á árunum 1993-1996 og hefur s.l. 10 ár unnið hjá Morgunblaðinu í lausamennsku.
Svanhildur hefur áður unnið að söguritun fyrir Sálarrannsóknarfélag Suðurnesja, Þroskahjálp á Suðurnesjum, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Sjálfstæðisfélagið Njarðvíking og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.
Svanhildur starfar sem deildastjóri á Bókasafni Reykjanesbæjar og er í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu í Háskóla Íslands.
Þeir sem hafa áhuga á að eignast bókina geta snúið sér til Ólafs Eggertssonar, formanns ritnefndar í síma 899 8067.