Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 10. desember 1998 kl. 23:54

SAGA MIÐNESHREPPS KOMIN ÚT

Nokkuð er um liðið síðan ákveðið var að skrá sögu Miðneshrepps frá stofnun hans 1887. Til verksins var fenginn sagnfræðingurinn Ásgeir Ásgeirsson. Hann hefur unnið þarft verk við að rannsaka sögu fyrstu ártuga Miðneshrepps, skrifa sögu þeirra og bregða upp mynd af veröld sem er um flest ólík nútímanum. Ásgeir hefur drjúga reynslu af ritum byggðasögu og er sérmenntaður á sviði félagssögu. Miðneshreppur varð til við skiptingu hins forna Rosmhvalaneshrepps og tekur í stærstum dráttum yfir það svæði sem nú er Sandgerðisbær. Sú bók sem nú lítur dagsins ljos spannar sögu sveitarfélagsins frá stofnun 1887 til tímamótanna 1907 þegar vélbátaútgerð hófst í Miðneshreppi. Í kjölfarið fylgdi atvinnubylting og margvíslegt umrót sem síðar verður fjallað um. Það hefur færst mjög í vöxt á undanförnum árum að sveitafélög láti skrá sögu sína. Oft eru síðustu forvöð að safna fyrir nútímann og jafnframt arfur sem við eftirlátum íbúum sveitarfélagsins um alla framtíð. Af fortíðinni má yfir leitt nokkuð læra og hverjum manni er hollt að þekkja rætur sínar. Myndefni bókarinnar er úr ýmsum áttum og er því fólki sem lagði lið við söfnun þeirra færðar sérstakar þakkir. Um vinnslu gamalla mynda og sértökur sá Heimir Stígsson ljósmyndari í Keflavík. Margar eldri myndanna eru nú varðveittar á Byggðasafni Suðurnesja. Flestar mannamyndir eru fengnar frá ljósmyndadeild Þjóðminjasafnsins. Kort Björns Gunnlaugssonar eru varðveitt í þjóðdeild Landsbókasafns Íslands, Háskólabókasafns. Í bókinni eru fimm sérunnin kort sem ná hvert um sig yfir eitt af hverfum Miðneshrepps eins og þau voru um aldamótin 1900. Grunnur kortanna er herforingjaráðskort sem mælt var árið 1908. Inn á kortin hefur verið bætt bæjarnöfnum sem heimamaður, Pétur Brynjarsson sagnfræðingur, hafði umsjón með söfnun á. Naut hann fulltingis margfróðra heimildarmanna við gerð kortanna. Annar sagnfræðingur, Anna Ólafsdóttir Björnsson, sá um tölvuvinnslu og bætti inn upplýsingum þeim sem uppá vantaði. Naut hún aðstoðar og velvildar þeirra er til var leitað við það verk. Anna hafði hafði jafnframt umsjón með útgáfu bókarinnar á lokaspretti verksins. Bæjarstjórn Sandgerðis hefur staðið að þessu verki í þeirri fullvissu að bókin verði Sandgerðingum og Suðurnesjamönnum kærkomin þekkingarbrunnur um ókomna framtíð. Þeir sem áhuga hafa á að eignast bókina geta snúið sér til skrifstofu Sandgerðisbæjar en bókin kemur úr prentsmiðju 11. des. nk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024