Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Saga Gunnu og síðustu ábúenda við Gunnuhver sögð á Reykjanesi
Fimmtudagur 18. ágúst 2011 kl. 14:22

Saga Gunnu og síðustu ábúenda við Gunnuhver sögð á Reykjanesi

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa haft frumkvæði af því að sett hafa verið upp upplýsingaskilti við háhitasvæðið vestast á Reykjanesi við Reykjanesvita.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðal skiltið lýsir draugasögunni um Gunnu. Gunna var uppi um 1700 og var leiguliði í koti við Kirkjuból í Sandgerði. Eftir að hún gat ekki staðið skil á leigunni tók Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður pott sem hún átti upp í leiguna. Við þetta reiddist Gunna mjög og neitaði að drekka vígt vatn og dó skömmu síðar. Þegar hún var sett niður í gröfina heyrðist sagt: „Ekki skal djúpt grafa, ekki á lengi að liggja“. Nóttina eftir fannst Vilhjálmur dauður og heyrðist af Gunnu afturgenginni um Miðnesheiðina. Margir reyndu að kveða Gunnu niður en ekkert gekk fyrr en Séra Eiríkur á Vogsósum fékkst í verkið eftir drjúgt brennivíns þamb. Sagði hann mönnum að koma hnykli í hendurnar á Gunnu og þá rúllaði hann með hana þangað sem hún gerði engum skaða. Þetta gekk allt eftir og Gunna elti hnykilinn í hverinn við Reykjanesvita og steyptist þar ofan í og hefur verið þar síðan. Sumir sjá hana hlaupa hring eftir hring á hverabarminum á eftir hnyklinum við það að detta ofaní og hljóðar hún hátt.

Einnig er þarna skilti sem segir frá síðasta ábúandanum við háhitasvæðið sem voru dönsk hjón að nafni Höyer. Þau reistu sér hús við Kísilhól sem enn sjást rústirnar af, en þau lifðu á að framleiða blóm og potta.

Þeir sem styrktu uppsetningu skiltanna voru auk Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Ferðamálastofa, Reykanesbær, Bláa Lónið og Grindavíkurbær.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson


Saga Gunnu, sem Gunnuhver heitir eftir, er sögð á þessu upplýsingaskilti á hverasvæðinu.


Dönsku Höyer-hjónin voru síðustu ábúendur við Gunnuhver. Rústir hússins þeirra sjást hér handan við skiltið.


Fulltrúar Ferðamálasamtaka Suðurnesja og þeirra sveitarfélaga og fyrirtækja sem stóðu að uppsetningu skiltanna.