Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi komin út
Þriðjudagur 20. nóvember 2018 kl. 17:37

Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi komin út

Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi er komin út hjá Isavia. Bókin er gefin út í rafbókarformi í opnum aðgangi á vef Landsbókasafnsins og Isavia. Einnig er hún gefin út í bókarformi.
 
Árið 2016 voru 70 ár liðin síðan Íslendingar fengu herflugvelli bandamanna í Reykjavík og Keflavík afhenta til eignar og hófu rekstur flugleiðsöguþjónustu á stórum hluta Norður-Atlantshafs. 
 
Árið 2017 voru líka þrjátíu ár liðin frá opnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem olli straumhvörfum í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll. Flugsamgöngur og innviðir sem þeim tengjast eru undirstaða sívaxandi ferðaþjónustu sem orðin er einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar.
 
Isavia ákvað að minnast þessara merku tímamóta með ritun 70 ára sögu flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi sem leikið hefur lykilhlutverk í samgöngusögu þjóðarinnar.
Bókinni Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi er ætlað að fagna þessum og öðrum merkum áföngum þessarar mikilvægu sögu. Útgáfan á líka vel við á afmælisári 100 ára sjálfstæðis þjóðarinnar.
 
Verkið telur nærri 550 blaðsíður og er allt hið glæsilegasta. Það er tileinkað öllu starfsfólki Isavia og forvera félagsins ásamt öðrum sem lagt hafa dygga hönd á plóginn við uppbyggingu og rekstur þeirrar mikilvægu þjónustu, sem stuðlaði m.a. að því að rjúfa einangrun í byggðum landsins.
 
Við hæfi er þegar opinbert fyrirtæki lætur skrá svo merka sögu að tryggja að hún nái til sem flestra landsmanna. Bókin er því gefin út í rafbókarformi í opnum aðgangi á vef Landsbókasafnsins og Isavia. Bókin verður líka til sölu í bókaverslunum. 
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia: „Ég vil þakka öllum sem komu að gerð verksins og sérstaklega höfundinum, Arnþóri Gunnarssyni sagnfræðingi, fyrir afar metnaðarfullt starf. Þarna er skráður mikilvægur hluti af sögu Íslands sem ekki má gleymast.“
 
Arnþór Gunnarsson (f. 1965) er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hann lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og MS-prófi í ferðamálafræði frá sama skóla árið 2011. Eftir Arnþór liggur fjöldi greina um sagnfræðileg efni í tímaritum, þar á meðal í Sögu, tímariti Sögufélagsins.
 
Bækur eftir Arnþór eru m.a. Saga Hafnar í Hornafirði I–II (1997 og 2000), Fiskisagan flýgur (2005, meðhöfundur Kristinn Benediktsson ljósmyndari), Guðni í Sunnu. Endurminningar og uppgjör (2006), Á afskekktum stað (2011) og Lífæðin / Lifeline (2017, meðhöfundur Pepe Brix ljósmyndari).
 
Bókaútgáfan Opna bjó verkið til prentunar.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024