Safnaði fyrir jólamáltíðum fyrir 50 fjölskyldur
Góðverkin halda áfram á Suðurnesjum. Gunnhildur Vilbergsdóttir, starfsmaður Isavia á Keflavíkurflugvelli, fór fyrir fáeinum dögum með matargjöf til Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ. Þá fékk hún að vita að um 30 fjölskyldur á Suðurnesjum fengju ekki matarúthlutun fyrir jólin þar sem meira væri ekki til skiptana.
Gunnhildur fór heim með þessar vondu fréttir og vildi svo sannarlega finna lausn til að engin yrði nú án jólamatar yfir hátíðirnar. Hún kastaði því fram beiðni á Facebook til vina sinna og óskaði eftir 5000 kr. framlagi frá þeim sem vildu taka þátt. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.
Í dag fór Gunnhildur í Nettó í Reykjanesbæ og verslaði jólamat fyrir 50 fjölskyldur á Suðurnesjum fyrir það söfnunarfé sem hafði borist og Nettó veitti Gunnhildi sinn besta afslátt út á málefnið.
Gunnhildur og Darri Berg, sonur hennar, fyllu heimilisbílinn af vörum sem nú hefur verið komið til Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ. Þar á bæ verður matargjöfunum komið á rétta staði í tæka tíð fyrir jólin.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi af þeim Gunnhildi og Darra við bílinn nú áðan og eins og sjá má var bíllinn fullur af jólamat og meðlæti en fyrir utan kjötvörur, þá voru kartöflur og grænmeti, auk rjóma í sósuna og ýmislegt fleira.
Fullur bíll af jólamat fyrir 50 fjölskyldur á Suðurnesjum.
VF-myndir: Hilmar Bragi